Líkið var af þýskri konu

Ksenja Bajkalov frá Hachenburg í Rheinland-Pfalz, austur af Köln í …
Ksenja Bajkalov frá Hachenburg í Rheinland-Pfalz, austur af Köln í Þýskalandi, var 22 ára gömul og hafði nýlokið sínum fyrsta starfsdegi á Hotel Arosa á þýsku sumarleyfiseyjunni Sylt þegar hún hvarf sporlaust að morgni 2. október í fyrra. Lík hennar fannst við hólma úti fyrir Tvedestrand í Suður-Noregi 27. mars. Ljósmynd/Hotel Arosa/Úr einkasafni

Lögreglan í Agder í Noregi hefur leyst ráðgátuna um sjórekið lík sem fannst í sjónum við Nautholmen úti fyrir Lyngør í Tvedestrand 27. mars. Ljóst var að líkið hefði verið lengi í sjónum og því þrautin þyngri að bera kennsl á það.

Meðal þeirra ráða sem lögregla greip til, þegar ekki tókst að tengja líkamsleifarnar neinni manneskju, sem saknað er í Suður-Noregi um þessar mundir, svo óyggjandi þætti, var að birta mynd af sundurtættum buxum í fjölmiðlum í von um að einhver kannaðist við þær.

Enginn þekkti buxurnar, enda lítið eftir af þeim annað en tætlur, og var næsta skrefið í rannsókninni þá að senda DNA-sýni úr líkamsleifunum óþekktu til nokkurra Evrópulanda sem þóttu koma til greina með tilliti til hafstrauma.

Ekki leið á löngu uns svar barst frá þýskum lögregluyfirvöldum þar sem erfðaefnissýnið frá Noregi hafði gefið fulla svörun við samsvarandi sýni sem Þjóðverjarnir höfðu í fórum sínum úr Ksenju Bajkalov, 22 ára gamalli konu frá Hachenburg í Rheinland-Pfalz, austur af Köln, sem hvarf sporlaust að loknum sínum fyrsta vinnudegi á lúxushótelinu Arosa í bænum List á þýsku eyjunni Sylt, annálaðri sumarleyfisparadís vestur af Flensborg á landamærum Danmerkur og Þýskalands.

Buxur af stærð 34 og sjórekið lík, sem var varla …
Buxur af stærð 34 og sjórekið lík, sem var varla annað en beinin, var allt sem lögreglan í Agder hafði í hendi á frumstigum rannsóknar líkfundarins við Nautholmen 27. mars. Síðar gaf DNA-sýni sem sent var til Þýskalands fulla svörun við mannshvarf þar í október. Ljósmynd/Lögreglan í Agder

Bajkalov hóf störf á hótelinu 1. október í fyrra og sást síðast til hennar í starfsmannavistarverum hótelsins að morgni daginn eftir, að sögn staðarblaðsins Rundschau. Spurðist ekkert til hennar síðan og reyndist leit um gervalla eyjuna án árangurs. Einu ummerkin sem leitin skilaði var jakki hennar sem fannst við ferjuhöfn Sylt og dró þýska lögreglan þá ályktun að Bajkalov hefði af ókunnum ástæðum tekið ferjuna sem siglir milli List og Danmerkur.

Önnur ráðgáta, sem þýska blaðið Bild greinir frá, er að Bajkalov sendi systur sinni póstkort frá eyjunni, sem dagsett er 1. október, fyrsta daginn í nýja starfinu, en þó ekki stimplað á póststofu þar fyrr en 5. október, þegar Bajkalov hafði verið saknað á fjórða dag.

Kort norsku hafrannsóknastofnunarinnar yfir strauma á hafsvæðinu milli Noregs, Danmerkur, …
Kort norsku hafrannsóknastofnunarinnar yfir strauma á hafsvæðinu milli Noregs, Danmerkur, Bretlands og Þýskalands. Líklegt er talið að Ksenja Bajkalov hafi tekið ferju frá List yfir til Danmerkur og fallið í sjóinn meðan á siglingunni stóð. Kort/Hafrannsóknastofnun Noregs

Auk erfðaefnis pössuðu hæð og aldursgreining líkamsleifanna, sem norskir réttarmeinafræðingar töldu vera af konu á aldrinum 20 til 30 ára, auk þess sem buxurnar eru af stærð 34 sem einnig kom heim og saman, en þær eru frá Tally Weijl, svissnesku merki sem ekki er selt í norskum verslunum.

Nákominn vinur fjölskyldunnar, sem Bild nafngreinir aðeins sem Max, 63 ára gamlan, lét blaðið hafa eftir sér að Bajkalov hefði verið ákaflega spennt fyrir nýja starfinu á Hotel Arosa og hlakkað mjög til að reyna þar fyrir sér. Þá kvað hann hana hafa verið ákaflega opna gagnvart öðru fólki og hvergi kennt sér meins heilsufarslega séð.

Að sögn nákomins vinar fjölskyldunnar, sem ræddi við þýska dagblaðið …
Að sögn nákomins vinar fjölskyldunnar, sem ræddi við þýska dagblaðið Bild, hlakkaði Bajkalov til að hefja störf á nýjum vettvangi og kenndi sér hvergi meins heilsufarslega. Voveiflegt andlát hennar í október verður því líkast til ráðgáta meðan moldir og menn lifa. Ljósmynd/Hotel Arosa

Systirin, Tina Bajkalov, ræddi við Bild eftir hvarfið í október í fyrra og sagði fjölskylduna með böggum hildar. „Hver veit hvar systir mín er niður komin?“ spurði hún í örvinglan.

NRK

VG

Bild

Sylter Rundschau (læst áskrifendasíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert