Öllu skellt í lás að nýju

AFP

Áströlsk yfirvöld hafa fyrirskipað að öllu verði skellt í lás í borginni Perth í þrjá sólarhringa eftir að fyrsta samfélagssmitið í eitt ár greindist þar. Það er rakið til farþega sem kom til landsins en greindist ekki fyrr en nokkru eftir að skimunarsóttkví lauk. 

Ríkisstjóri Vestur-Ástralíu, Mark McGowan, segir að manni hafi verið heimilað að yfirgefa sóttvarnaheimili 17. apríl þar sem hann var neikvæður í skimun að lokinni hefðbundinni tveggja vikna sóttkví eftir komuna til landsins. Nokkrum dögum síðar greindist hann með Covid-19. Einn þeirra sem hann hafði umgengist mest í Perth greindist síðan með veiruna í dag. 

Unnið er að smitrakningu meðal þeirra sem hittu manninn þessa fimm daga sem hann dvaldi í Perth áður en hann flaug til Melbourne. Þar greindist hann jákvæður við sýnatöku og var settur strax í einangrun.

Fá ríki heims hafa farið jafn vel út úr faraldrinum og Ástralía en þar hafa tæplega 30 þúsund smit greinst frá upphafi faraldursins og rúmlega 900 þeirra hafa látist. Alls eru íbúar landsins 25 milljónir talsins.

Afar fá tilvik samfélagssmita hafa greinst í Ástralíu undanfarna mánuði en þau hafa öll reynst tengjast sóttkvíarhúsum í stórborgum. Þar hefur verið gripið til sama ráðs og í Perth nú, öllu skellt í lás í stuttan tíma.

Eitt af því sem Ástralar hafa áhyggjur af er hvernig staðið er að sóttvörnum og ráðstöfunum á slíkum sóttvarnahúsum, á hótelum sem hefur verið breytt í sóttvarnahús. Í nokkrum tilvikum hefur smit borist á milli fólks í ólíkum herbergjum. Eins hefur smitum fjölgað mjög á landamærunum, einkum og sér í lagi meðal fólks sem er að koma frá Indlandi. 

Alríkisstjórnin tilkynnti hertar aðgerðir á landamærunum hvað varðar komur frá Indlandi og McGowan segir að þar verði hert enn frekar á þessu þar sem takmarkaður fjöldi fær að snúa aftur til ríkisins á næstunni sem er að koma erlendis frá. 

McGowan segir að næstu þrjá daga verði íbúum Perth og Peel-héraðs gert að halda sig heima. Hægt er að sækja sér mat og taka með heim af veitingastöðum og krám en öllu skemmtanahaldi aflýst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert