Skaut eiginmanninn til bana í sjálfsvörn

Melek Ipek sést hér faðma dætur sínar þegar niðurstaða dómsins …
Melek Ipek sést hér faðma dætur sínar þegar niðurstaða dómsins var ljós. AFP

Tyrknesk kona sem skaut eiginmann sinn bana eftir áralangt heimilisofbeldi hefur verið látin laus úr haldi eftir að dómstóll í hafnarborginni Antalya dæmdi að um sjálfsvörn hefði verið að ræða.

Dómurinn féll í gær og þykir niðurstaða hans afar fátíð en um leið mikill sigur fyrir kvenréttindasamtök í Tyrklandi.

Fyrir mánuði sögðu tyrk­nesk stjórn­völd sig frá samn­ingi Evr­ópuráðsins um for­varn­ir og of­beldi gegn kon­um og heim­il­isof­beldi. Samn­ing­urinn var und­ir­ritaður í Ist­an­búl árið 2011 og hef­ur síðar verið lög­fest­ur í flest­um ríkj­um Evr­ópu, þar á meðal á Íslandi árið 2018.

Tvær dætur Melek Ipek föðmuðu móður sína þegar hún gekk út úr réttarsalnum eftir niðurstöðu dómarans. Melek, sem er 31 árs, var með áverka á líkama og andliti þegar hún var handtekin í janúar. Hún bar fyrir dómi að eiginmaður hennar hefði ítrekað handjárnað hana og barið klukkustundum saman. Á sama tíma hefði hann hótað að drepa hana og börn þeirra. 

AFP

Dætur hennar báru einnig vitni fyrir dómi og var vitnisburður þeirra sambærilegur Ipek. Afar sjaldgæft er að tyrkneskir dómstólar dæmi konum í hag þegar heimilisofbeldi er annars vegar. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að rannsókn hafi leitt í ljós að 38% kvenna í Tyrklandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu eiginmanns eða sambýlismanns. 

Mannréttindasamtökin We Will Stop Femicide Platform segja að yfir 300 konur hafi verið drepnar af fjölskyldum sínum eða mökum í Tyrklandi í fyrra.

mbl.is