Skotin til bana á götu

Kona var skotin til bana á götu í Frogner á …
Kona var skotin til bana á götu í Frogner á níunda tímanum í morgun. mbl.is/Atli Steinn

Maður er í haldi lögreglu eftir að kona var skotin til bana á götu í Frogner í Ósló upp úr klukkan átta í morgun að norskum tíma. Lögreglu barst tilkynning um skothvelli klukkan 08:27. „Við fengum tilkynningu um skothvelli á götu. Ein manneskja hefur verið úrskurðuð látin á staðnum,“ segir Gjermund Stokkli, aðgerðastjóri lögreglunnar í Ósló, við norska ríkisútvarpið NRK.

Þremur mínútum eftir að lögreglunni barst tilkynning um skotárásina var maður handtekinn í bifreið á E18-brautinni, en lögregla hafði örskömmu áður sent út tilkynningu á fjarskiptum um að bifreið hefði sést aka frá vettvangi árásarinnar á miklum hraða.

Svend Bjelland varðstjóri segir handtökuna hafa farið fram átakalaust. „Þetta [handtakan] var byggt á upplýsingum sem okkur bárust. Við getum ekki gefið neitt upp á þessu stigi,“ segir hann við NRK.

Hefur lögregla nú lokað Tostrups gate í Frogner-hverfinu þar sem tæknifólk vinnur að frumrannsókn málsins.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert