Skuldaði hinni myrtu 176 milljónir

Skjáskot af myndskeiði vegfaranda sem sýnir lögreglu handtaka mann á …
Skjáskot af myndskeiði vegfaranda sem sýnir lögreglu handtaka mann á fertugsaldri í morgun, byggingarverktaka sem grunaður er um að hafa skotið fyrrverandi viðskiptavin sinn, konu á sextugsaldri, til bana í Frogner á níunda tímanum í morgun í kjölfar dóms í skaðabótamáli sem hún höfðaði gegn honum. Skjáskot/Ábendinganetfang VG

„Ekkert bendir til þess að hér sé um verknað af handahófi að ræða. Hér er á ferð fólk sem tengist, ekki ættarböndum heldur í viðskiptalífinu,“ sagði Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, á blaðamannafundi lögreglunnar í dag í kjölfar þess er kona á sextugsaldri var skotin til bana á götu í Frogner í morgun.

Eins og mbl.is greindi frá barst lögreglunni tilkynning um skothvelli klukkan 08:27 í morgun að norskum tíma og sendi umsvifalaust lið á vettvang. Sást til bifreiðar sem ekið var greitt af vettvangi og var ökumaður hennar handtekinn örfáum mínútum síðar, á E18-brautinni við Strand í nágrannasveitarfélaginu Bærum.

Nú er það komið fram að grunaði virðist hafa gefið sig fram á akstrinum, stöðvað bifreið sína og veifað til lögreglubifreiðar sem kom aðvífandi. „Hann býr í Bærum og segir að hann hafi ætlað að aka á lögreglustöðina í Sandvika og gefa sig þar fram,“ segir Per Conradi Andersen, lögmaður mannsins, við dagblaðið VG. Staðfestir Metlid deildarstjóri þessa frásögn.

Skaðabótamál vegna húsbyggingar

Á frumstigum málsins kom líkleg ástæða verknaðarins í ljós. Árásarmaðurinn, sem er tæplega fertugur byggingarverktaki, skuldaði hinni myrtu 11,8 milljónir norskra króna, jafnvirði 176 milljóna íslenskra króna, samkvæmt dómi í skaðabótamáli sem féll í Héraðsdómi Óslóar fyrir jól, auk 900.000 norskra króna í málskostnað.

Fréttamaður VGTV ræðir við Svend Bj­el­l­and varðstjóra á vettvangi ódæðisins …
Fréttamaður VGTV ræðir við Svend Bj­el­l­and varðstjóra á vettvangi ódæðisins í morgun. Skjáskot/sjónvarp VG

Risu málaferlin í kjölfar byggingarframkvæmda þar sem fyrirtæki í eigu grunaða hafði byggt tvær fasteignir fyrir hina myrtu og eiginmann hennar. Var önnur byggingin viðbygging sem reist var ofan á fasteign sem verkkaupi, konan, átti fyrir og bjó í. Þau maður hennar ætluðu sér að selja þá eign eftir breytingarnar og flytja í aðra fasteign, sem var hin byggingin sem verktakinn reisti.

Viðbyggingin, sem gerð var ofan á hús í grónu hverfi sem auk þess er á svokölluðum gulum lista borgarminjavarðar og því friðað að hluta, var háð samþykki og ströngum skilyrðum skipulagsyfirvalda í Ósló, og hófust framkvæmdir árið 2015.

Braut gróflega gegn byggingarleyfi

Í maí 2018 komu byggingareftirlitsmenn á vegum borgarinnar til að gera úttekt á verkinu og kom þá í ljós að verktakinn hafði brotið gróflega gegn því leyfi sem viðbyggingin var háð og farið langt út fyrir þær framkvæmdir sem leyfi fékkst fyrir, meðal annars var viðbyggingin mun hærri en skipulag hverfisins leyfði.

Fór að lokum svo að verkkaupi og maður hennar seldu íbúðina og viðbygginguna umdeildu langt undir markaðsvirði eftir að hafa auk þess lagt í kostnað við að bæta úr göllunum og höfðaði konan þá skaðabótamál gegn verktakanum, sem nú er grunaður um að hafa skotið hana mörgum skotum á götu í Frogner í morgun, og hugðist freista þess að fá bætt það tjón sem verktakinn hefði bakað henni með handvömm sinni.

Frá vettvangi á Tostrups gate í Frogner í morgun. Vitni …
Frá vettvangi á Tostrups gate í Frogner í morgun. Vitni segir grunaða hafa komið að máli við konuna sem sat þá í bifreið sinni. Hafi þau rætt saman, ekki með háreysti, en auðheyrt að sögn vitnisins að þar var engin blíðmælgi. Því næst kvaðst vitnið hafa heyrt fjóra eða fimm skothvelli. Skjáskot/sjónvarp VG

„Hún gerði kröfu um skaðabætur vegna vanefnda verktakans á samningi þeirra á milli sem leiddi til þess að hún neyddist til að láta gera umfangsmiklar breytingar á byggingunni,“ segir Marius Andreas Rød, lögmaður hjá lögmannsstofunni Bing Hodneland, sem flutti bótamál konunnar fyrir héraðsdómi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Tapaði og áfrýjaði

Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að verktakinn væri bótaskyldur í málinu og dæmdi konunni framangreinda fjárhæð auk málskostnaðar úr hendi hans, en hann áfrýjaði dómnum og var aðalmeðferð í áfrýjunarmálinu á dagskrá lögmannsréttar í janúar 2022.

„Málinu var áfrýjað og við væntum þess að niðurstaðan úr því gæti orðið okkur í hag,“ segir Andersen, lögmaður grunaða, við NRK, „en eins og sakir standa er það ekki lengur forgangsmál hjá umbjóðanda mínum.“

Grunaði hefur enn ekki verið yfirheyrður þar sem lögmaður hans hefur lagst gegn því. „Hann situr inni og að mínu mati er ekki ráðlegt að lögregla yfirheyri hann fyrr en á morgun. Ég hef komið honum í samband við verjanda sem mun heimsækja hann í kvöld,“ sagði Andersen að lokum við NRK.

Verjandinn er Ole Petter Drevland og hefur hann ráðlagt skjólstæðingi sínum byggingarverktakanum að fallast á kröfu lögreglu um gæsluvarðhald. „Grunaði hefur fallist á gæsluvarðhaldsúrskurð að mínu ráði og í samræmi við málavöxtu,“ sagði Drevland við NRK í kvöld.

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum áttu aðilar málsins í málaferlum. Að þeim hafði ég enga aðkomu svo ég hef engu við að bæta þar,“ sagði verjandinn að síðustu.

NRK

VG

VGII (skaðabótamálið)

Aftenposten

TV2

Dagbladet

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert