Barnshafandi múmía uppgötvuð af pólskum vísindamönnum

Ólétta múmían.
Ólétta múmían. AFP

Pólskir vísindamenn hafa uppgötvað kvenkyns múmíu sem var barnshafandi við andlát og múmíugerð hennar. Þetta er í fyrsta sinn sem slík uppgötvun hefur verið gerð. Áður var talið að múmían hafi verið af karlkyns presti en skimun vísindamannanna á líkinu leiddi hið rétta í ljós.

Talið er að múmían sé af hástéttarkonu sem var á aldrinum 20-30 ára og lést á fyrstu öld fyrir Krist. Samkvæmt mælingum á höfuðkúpu fóstursins var konan gengin allt að 30 vikur áður en hún lést.

„Þýðingarmesti fundur okkar hingað til“

Uppgötvunin er hluti af verkefni pólskra fornleifafræðinga sem eru að rannsaka egypskar fornminjar í Þjóðminjasafni Varsjár. „Þetta er mikilvægasti og þýðingarmesti fundur okkar hingað til,“ er haft eftir einum fornleifafræðinganna, Wojciech Ejsmond. „Þetta er eina þekkta tilfellið af múmíugerðri og óléttri konu og fyrstu röntgenmyndirnar af slíku fóstri.“

Talið er að menjarnar af því sem fornleifafræðingarnir hafa nefnt „Dularfullu konuna“ hafi verið gefnar Háskólanum í Varsjá árið 1826. Áletranir á líkkistu múmíunnar bentu til þess að hér væri grafinn karlkyns prestur að nafni Hor-Djehuti en nú telja fornleifafræðingar að múmían hafi verið sett í vitlausa kistu af fornleifasölum á 19. öld.

Pólskir fornleifafræðingar að skima óléttu múmíuna.
Pólskir fornleifafræðingar að skima óléttu múmíuna. AFP

Dr. Marzena Ożarek-Szilke, sem einnig er í hópnum, útskýrði fyrir pólsku ríkisfréttastofunni að eiginmaður hennar hafi komið auga á það sem virtist vera „smágerður fótur“ á einni myndinni. Hún vonast til þess að brátt muni þau skera úr um hvað dró konuna til bana.       

mbl.is