Boðar skattahækkanir á þá allra ríkustu

Joe Biden ávarpaði báðar deildir þingsins í gær. Fyrir aftan …
Joe Biden ávarpaði báðar deildir þingsins í gær. Fyrir aftan hann eru Kamala Harris varaforseti og Nancy Pelosi forseti öldungadeildarinnar. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hvetur til þess að skattar verði hækkaðir á efnaðasta fólk Bandaríkjanna og fyrirtæki. Þetta er meðal þess sem kom fram í ávarpi hans í gærkvöldi er hann kynnti aðgerðir stjórnvalda í kjölfar Covid-19. 

„Hvernig eigum við að greiða fyrir fjölgun starfa og fjölskylduáætlunina? Það er mín skoðun að við getum gert það án þess að auka fjárlagahallann,“ sagði Biden er hann ávarpaði báðar deildir Bandaríkjaþings í gær.

„Ég mun ekki hækka skatta á fólk með tekjur undir 400 þúsund bandaríkjadölum. En það er orðið tímabært fyrir bandarískar fyrirtækjasamsteypur og auðugustu Bandaríkjamennina, 1% þjóðarinnar, að greiða sanngjarnan hlut,“ sagði Biden í ræðu sinni.

Fyrr um daginn hafði Biden kynnt áætlun um að setja 1.800 millj­arða banda­ríkja­dala í aðgerðir fyrir bandarískar fjölskyldur. Þar á meðal í grunn- og framhaldsskóla, dagvistun barna og háskóla. Jafnframt verði yfir tvö þúsund milljarðar dala settir í uppbyggingu innviða. Svo sem vegaframkvæmdir og brúarvinnu. Eins í umhverfisvæn tækniverkefni, bætt aðgengi að neti og breiðbandi og aðgengi heimila að vatni. 

Ólíkt björgunarpakkanum sem Biden kynnti í síðasta mánuði þá er forsetinn beittur miklum þrýstingi nú hvað varðar fjármögnun aðgerðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert