Stefna á bóluefni fyrir börn í júní

Bóluefni Pfizer/BioNTech.
Bóluefni Pfizer/BioNTech. AFP

Lyfjaframleiðendurnir BioNTech og Pfizer stefna á að veita 12 til 15 ára gömlum börnum í Evrópu bóluefni í júnímánuði. Forstjóri BioNTech sagði í samtali við Der Spiegel að fyrirtækið væri á síðustu metrunum í því að leggja fram umsókn um leyfi frá Lyfjastofnun Evrópu. 

Það tekur svo að meðaltali fjórar til sex vikur fyrir Lyfjastofnun Evrópu að meta gögn fyrirtækisins. BioNTech lítur á bólusetningu barna sem lykilskref í átt að hjarðónæmi og endalokum faraldursins. 

Sem stendur hefur ekki verið tekin ákvörðun um bólusetningu barna hér á landi en öllum þeim sem fæddir eru árið 2005 eða fyrr verður boðin bólusetning til að byrja með. Í samtali við mbl.is á þriðjudag sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að byggt væri á markaðsleyfi bóluefnanna sem eru í umferð hér þegar tekin væri ákvörðun um það hverjir fengju bólusetningu. Það er gefið út fyrir 16 ára og eldri. 

„Til þess að breyta því þyrfti að end­ur­meta markaðsleyfið á grund­velli þeirra rann­sókna sem eru að fara fram núna,“ sagði Svandís á þriðjudag. 

Það ætti að henta yfirvöldum hér á landi ágætlega að bóluefnið standi til boða fyrir börn í júnímánuði þar sem bólusetningu fullorðinna, í það minnsta hvað fyrsta skammt varðar, á að vera komin mjög langt í þeim mánuði. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina