150 milljónir hafa smitast af Covid-19

Enn eitt smitfjöldametið var sett síðasta sólarhringinn í næstfjölmennasta ríki heims, Indlandi. Í dag var greint frá 385 þúsund nýjum staðfestum smitum þar í landi en talið er að þau séu margfalt fleiri þar sem erfitt er að komast í skimun þar sem skortur er á sýnatökupinnum. Alls hafa 150 milljónir jarðarbúa greinst með staðfest Covid-19-smit frá því faraldurinn braust út í kínversku borginni Wuhan í desember 2019. Frá þeim tíma hafa 3,2 milljónir látist úr sjúkdómnum. 

Fjöldi nýrra smita hefur meira en tvöfaldast frá því um miðjan febrúar samkvæmt tölum AFP-fréttastofunnar. Flest eru smitin hingað til í Bandaríkjunum, á Indlandi og í Brasilíu. Staðan er einna verst á Indlandi og hafa yfir 40 ríki sent hjálpargögn og lækningatæki til Indlands. Þar á meðal voru sendir yfir 400 súrefniskútar þangað með bandarískri herþotu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert