Hagvöxtur og aflétting aðgerða

Hagvöxtur mældist í Frakklandi á fyrsta ársfjórðungi og þrátt fyrir að hann væri minni en spár höfðu gert ráð fyrir kom hann samt á óvart vegna harðra sóttvarnareglna sem þar hafa gilt undanfarna mánuði. 

Mældist hagvöxturinn 0,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins samkvæmt tilkynningu frá Hagstofu Frakklands. Spá hagstofunnar hafði hljóðað upp á 1% hagvöxt en þá var ekki tekið tillit til þess að nánast öllu var skellt í lás vegna fjölgunar smita þar í landi. 

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, kynnti í gær hvernig yrði staðið að afléttingum sóttvarnareglna á næstunni. Kaffihús, menningarmiðstöðvar og önnur starfsemi sem hefur verið lokað vegna Covid-19 má opna að nýju 19. maí. 

Um er að ræða áætlun í fjórum liðum.

  • 3. maí mega nemendur í gagnfræðaskólum og framhaldsskólum mæta í skólann í eigin persónu. Frelsi til ferðalaga verður virkjað á ný. 
  • 19. maí verður reglum um útgöngubann að næturlagi breytt. Það er að það gildir frá klukkan 21 í stað 19 í dag. Kaffihús og veitingastaðir mega taka á móti gestum utandyra. Verslanir sem selja annað en nauðsynjavöru fá að opna, sem og kvikmyndahús, söfn og leikhús. 
  • 9. júní verður útgöngubannið fært til 23. Eins verða kynntir „heilbrigðispassar“ fyrir þá sem ætla að mæta á stóra og fjölmenna viðburði sem og fyrir erlenda ferðamenn sem koma til landsins.
  • 30. júní verður útgöngubanninu aflétt en næturklúbbar verða lokaðir áfram. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert