Myrt í Frogner

Fevziye Kaya Sørebø var 51 árs gamall lektor í tungumálum …
Fevziye Kaya Sørebø var 51 árs gamall lektor í tungumálum við OsloMet-háskólann í Ósló og löggiltur túlkur. Hún er tyrknesk en hafði verið búsett í Noregi um langt árabil. Sørebø lætur eftir sig tvær dætur á táningsaldri en maður hennar, Svein Jaran Sørebø, lést árið 2018. Ljósmynd/Úr einkasafni

Konan, sem tæplega fertugur byggingarverktaki er grunaður um að hafa skotið til bana í bifreið í Frogner í Ósló á miðvikudagsmorgun, hét Fevziye Kaya Sørebø, 51 árs gamall túlkur og lektor í tungumálum við OsloMet-háskólann í Ósló.

Eins og mbl.is hefur greint frá hafði grunaða verið gert að greiða fórnarlambi sínu 11,8 milljónir norskra króna, jafnvirði 176 milljóna íslenskra, í dómsmáli sem reis í kjölfar byggingarframkvæmda við heimili Sørebø og manns hennar, Svein Jaran Sørebø heitins, en verktakinn braut þar alla skilmála byggingarleyfis og olli verkkaupum stórtjóni.

Sørebø var tyrknesk en hafði verið búsett í Noregi um langt árabil þar sem hún hafði meðal annars starfað sem löggiltur túlkur auk háskólakennslu. Rita Parnas, lögmaður lögreglunnar í Ósló, segir að dætur hinnar látnu hafi við skýrslugjöf hjá lögreglu í dag (föstudag) veitt samþykki sitt fyrir því að nafn móður þeirra yrði gert kunnugt í tengslum við ódæðið.

Grunaði, sem handtekinn var aðeins nokkrum mínútum eftir að Sørebø var skotin fimm skotum þar sem hún sat undir stýri bifreiðar sinnar, hefur nú verið vistaður á geðdeild vegna andlegs ástands hans og hefur ekki enn verið þannig á sig kominn eftir handtökuna að unnt sé að yfirheyra hann. Þá hefur hann ekki tekið afstöðu til sektar sinnar eða sakleysis að sögn verjanda hans, Ole Petter Drevland.

Bíða fullnaðarkrufningarskýrslu

Norska dagblaðið VG greindi frá því í dag, að Sørebø hefði í júlí í fyrra lagt fram kæru á hendur grunaða fyrir skemmdarverk, en málið var að sögn Parnas lögmanns fellt niður þar sem lögregla hafði ekki ráðrúm til að sinna því, „av kapasitetshensyn“ eins og það er orðað.

Lögregla hefur fengið bráðabirgðakrufningarskýrslu í hendur, en Parnas kýs að tjá sig ekki um innihald hennar að svo búnu. „Við getum ekki veitt upplýsingar um skýrsluna núna, en hún er tilbúin og við bíðum eftir fullnaðarskýrslu.“

Enn fremur kveður hún lögreglu þekkja til vopnsins, sem beitt var við atlöguna, en verst einnig allra nánari frétta af því. Lögregla vinni nú út frá því að fjárhagslegir hagsmunir hafi verið kveikjan að verknaðinum. „Það hefur verið okkar höfuðkenning frá byrjun og enn hefur ekkert komið fram sem veikir hana,“ sagði Parnas við VG.

NRK

VG

Dagbladet

TV2

mbl.is