Gripinn með eiturlyf og vopn í einkaþotunni

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Bandarískur ferðamaður á sjötugsaldri var handtekinn á föstudag stuttu eftir að hafa lent með einkaþotu sinni á ítölsku eyjunni Sikiley. Um borð í einkaflugvélinni fundust vopn og eiturlyf, að því er ítalskir miðlar greina frá.

Maðurinn heitir Joseph Horan og er 64 ára. Hann ferðaðist til Ítalíu til að heimsækja ættingja sína sem þar búa. Við landamæraeftirlit í vélinni fundust nokkrar byssur, bogi, örvar og um eitt kíló af kannabis.

Horan er sagður vera vellauðugur viðskiptamaður sem á hlut í fyrirtæki í landbúnaði í bænum Santa Ninfa á vesturhluta Sikileyjar. Hann er nú í haldi lögreglu meðan rannsókn stendur yfir.

mbl.is