Létust í snjóflóði

Svæðið þar sem snjóflóðið féll á Sofiatinden í dag. Tveir …
Svæðið þar sem snjóflóðið féll á Sofiatinden í dag. Tveir menn á þrítugsaldri létust í flóðinu. Ljósmynd/Rauði krossinn/Frode Hansen

Tveir menn á þrítugsaldri létust í snjóflóði við fjallið Sofiatinden í Lyngen í Troms og Finnmark í Noregi í morgun. Lögreglu barst tilkynning um snjóflóðið klukkan 13:25 að norskum tíma og höfðu tilkynnendur, útivistarfólk sem var á ferð skammt frá, séð tvær manneskjur í flóðinu.

Björgunarlið, meðal annars frá Rauða krossinum, var fljótlega komið á staðinn og hóf leit á fimm snjósleðum auk þess sem leitarhundar fóru um svæðið og áhafnir þriggja björgunarþyrla leituðu úr lofti að mönnunum, sem voru frá Tromsø. Fundust þeir á þriðja tímanum og reyndust þá báðir látnir.

Segir flóðið hafa verið stórt

Björgunarsveitir héldu leit áfram á svæðinu til klukkan tæplega fimm og greindi lögregla þá frá því á Twitter, að ekkert benti til þess að fleiri hefðu orðið fyrir flóðinu sem að sögn Daniel Larsen, stjórnanda rauðakrossdeildarinnar í Lyngen, var í stærra lagi. Sofiatinden er 1.222 metra hár og féll flóðið 400 metra, úr um það bil 1.100 metra hæð yfir sjávarmáli niður í 400.

Segir Larsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að gönguleiðir á og við Sofiatinden séu krefjandi og óvönu göngufólki væri ekki ráðlegt að fara þar um.

Frekari hætta er talin á snjóflóðum á svæðinu að sögn Emmu Julseth Barford, vaktstjóra snjóflóðavarðstofu, og er hættuástand í gildi fram á mánudag. „Töluvert hefur snjóað og auk þess verið kalt í veðri svo snjór í hlíðum getur verið laus í sér á næstunni,“ sagði Barford við NRK.

Snjóflóð hafa kostað níu mannslíf í Noregi í vetur, þar af fjögur í Troms, þar sem skíðafólk er almennt talið í mestri snjóflóðahættu af öllum fylkjum landsins.

NRK

VG

Dagbladet

mbl.is