Sendiherra talaði af sér

Sendiherra Kína í Svíþjóð gæti verið í vandræðum eftir að hann talaði af sér í viðtali við sænska ríkissjónvarpið.

Í viðtalinu, sem sjá má að hluta hér að ofan, virðist sendiherrann viðurkenna að Taívan sé ekki hluti af Kína – nokkuð sem fer gegn opinberri stefnu kínverskra stjórnvalda sem líta á Taívan sem „óframseljanlegan hluta af Kína“.

Andað hefur köldu milli stjórnvalda í Kína og Svíþjóð um nokkurt skeið og má að hluta rekja þær deilur til fangelsunar kínverskra stjórnvalda á rithöfundinum Gui Minhai, sem bæði hefur sænskt og kínverskt ríkisfang. Gui afplánar nú tíu ára fangelsisdóm í Kína en honum var gefið að sök að hafa veitt erlendum stjórnvöldum leynilegar upplýsingar sem fóru gegn hagsmunum  ríkisins. Hið rétta er að hann hefur skrifað bækur sem eru stjórnvöldum ekki þóknanlegar.

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa krafist þess að Gui verði leystur úr haldi, en hann hefur jafnframt verið sæmdur sænsku útgáfu PEN-bókmenntaverðlaunanna og lagðist það ekki vel í kínverska sendiherrann, Gui Congyou, sem hefur ítrekað hótað stjórnvöldum „afleiðingum“.

Sambandið hefur súrnað enn síðustu misserin og nægir að nefna deilur um starfsemi kínverska tæknifyrirtækisins Huawei í Svíþjóð, hótanir sendiherrans í garð sænska keppinautsins Ericsson og hótanir hans í garð blaðamannsins Jojje Olsson, sem hefur verið búsettur í Asíu frá árinu 2007, nú síðast í Taívan, þaðan sem hann skrifar meðal annars um stjórnmál í Kína.

Þá kastaðist enn í kekki þegar upp komst að sænski verslunarrisinn H&M vildi ekki kaupa bómul frá Xinjiang-héraðinu í Kína vegna rökstudds gruns alþjóðasamfélagsins um að þar sé úígúra-múslimum haldið í þrælkunarvinnu. Varð það tilefni til mikilla mótmæla og ákalls um sniðgöngu á vörum H&M í Kína.

Gui Congyou, sendiherra Kína í Svíþjóð, var til viðtals í …
Gui Congyou, sendiherra Kína í Svíþjóð, var til viðtals í þættinum 30 Minuter í sænska ríkissjónvarpinu í vikunni. Skjáskot/SVT

Kínverska þjóðin sætti sig ekki við „árásir“

Því vakti skiljanlega nokkra athygli þegar sendiherra Kína í Svíþjóð, Gui Congyou, mætti í viðtal til fréttamannsins Anders Holmberg í umræðuþættinum 30 Minuter á miðvikudag. Í viðtalinu er farið um víðan völl og Gui meðal annars spurður út í hótanirnar í garð blaðamannsins.

Áður en sendiherrann hefst handa við að réttlæta þær bendir hann hins vegar á að blaðamaðurinn, sem kallar sig sérfræðing í málefnum Kína, búi alls ekki í Kína heldur Taívan. Sendiherrann virðist átta sig fljótt á mistökunum og því við að vitanlega sé Taívan þó hluti af Kína.

Fréttamaðurinn Holmberg gengur hart að sendiherranum og spyr hann hverju sæti að sænskur blaðamaður þurfi að búa við slíkar hótanir og einnig hvað hann eigi við með „afleiðingum“ sem blaðamaðurinn kunni að sæta ef hann lætur ekki af gagnrýnni umfjöllun um kínversk stjórnvöld. Sendiherrann svarar þeirri spurningu ekki beint, en segir að kínverska þjóðin geti ekki sætt sig við svona lagaðan áróður og sé í fullum rétti til að verja sig.

Myndbrot úr viðtalinu má sjá hér að ofan, en það er birt með góðfúslegu leyfi sænska ríkissjónvarpsins, SVT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert