Stýrir bænum úr fangelsi

Georges Tron, bæjarstjóri í bænum Draveil í úthverfi Parísar. Hann …
Georges Tron, bæjarstjóri í bænum Draveil í úthverfi Parísar. Hann afplánar nú fimm ára dóm fyrir nauðgun en situr enn sem fastast. AFP

Georges Tron, bæjarstjóri í Draveil, úthverfi Parísarborgar, var í febrúar fundinn sekur um nauðgun og kynferðislega áreitni og var hann dæmdur í fimm ára fangelsi.

MeToo-hreyfingin fagnaði sigri. Tron var áhrifamaður innan franska repúblikanaflokksins og hafði gegnt ráðherrastöðu, sem hann hafði sagt af sér eftir að ásakanir um kynferðisbrot komu fram.

Nú, rúmum tveimur mánuðum eftir dómsuppkvaðningu, sýnir Tron hins vegar ekki á sér neitt fararsnið og stýrir bænum enn úr fangelsi. Hann reiðir sig á undirmenn sína til að sinna daglegum rekstri en sendir annars bréf til þeirra um hvernig þeir eigi að bera sig að. Síðasti fundur bæjarstjórnar hófst á því að lesið var upp bréf frá honum með leiðbeiningum um fjárhagsáætlun bæjarins. Þá var hann skráður sem löglega afsakaður frá fundi.

Aðgerðasinnar segja framferði bæjarstjórans, og það að hann komist upp með það, til marks um hversu gallað franska réttarkerfið er og hversu mikið þarf að gera til að staðið sé undir þeim væntingum sem gerðar eru.

Eftir að hafa verið dæmdur í fangelsi áfrýjaði Tron dómnum samstundis og bíður nú þess að málið fari fyrir dóm að nýju. Samkvæmt frönskum lögum felur áfrýjun í sér að hann er aftur álitinn saklaus þrátt fyrir fyrri sakfellingu. Þetta hafa bandamenn hans nýtt sér og neitað að vísa honum úr embætti.

mbl.is