500 milljónir Moderna-skammta til Covax

Heilbrigðisstarfsmaður í Sýrlandi sést hér fá bólusetningu með AstraZeneca-bóluefninu um …
Heilbrigðisstarfsmaður í Sýrlandi sést hér fá bólusetningu með AstraZeneca-bóluefninu um helgina. AFP

Alþjóðlega bóluefnasamstarfið, Covax, hefur skrifað undir samning við bandaríska bóluefnaframleiðandann Moderna um afhendingu á 500 milljónum skammta af bóluefninu. 

Verkefnið er undir stjórn WHO en aðild að því eiga einnig Global Vaccine Alliance (Gavi) og Coalition for Epidemic Preparedness Innovations (Cepi). Um er að ræða samstarf 192 ríkja, þar á meðal Íslands, um að tryggja jafna dreifingu bólu­efn­is gegn kórónuveirunni meðal efnaminni ríkja heims­ins.

Seth Berkley, framkvæmdastjóri Gavi, segir að þetta sé fyrsti samningurinn sem gerður er við Moderna en hingað til hefur Covax-verkefnið þurft að reiða sig á bóluefni AstraZeneca og hefur ítrekað komið til tafa á afhendingu. 

Fyrstu skammtarnir frá Moderna verða til reiðu í fyrsta lagi í október. Talað er um að afhenda 34 milljónir skammta á fjórða ársfjórðungi en 466 milljónir skammta á næsta ári. 

AFP

Stefna Covax er að dreifa nægu bóluefni fyrir 27 prósent af af mannfjöldanum á 92 af fátækustu svæðum heims fyrir lok árs. 

Þau bóluefni sem fara inn í Covax-samstarfið þurfa að hafa hlotið samþykki WHO. Covax hefur þegar dreift um 49 milljónum skammta af bóluefni við Covid-19.

AFP

Moderna-bóluefnið er þegar í notkun á 46 svæðum í heiminum og fagnar forstjóri Moderna, Stephane Bancel, samstarfinu við Covax. Það sé mikilvægt fyrir Moderna að taka þátt í að tryggja aðgang jarðarbúa að bóluefni. Lyfjafyrirtækið styðji við Covax-samstarfið og þá hugsun sem þar býr að baki. 

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, leiðir innkaup og afhendingu á bóluefnunum fyrir Covax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert