Biðja iðkendur afsökunar á misnotkun

Undanfarin ár hafa komið upp mál sem tengjast misnotkun innan …
Undanfarin ár hafa komið upp mál sem tengjast misnotkun innan fimleikasambanda í Bandaríkjunum, Bretlandi og nú Ástralíu. AFP

Vísbendingar eru um víðtæka misnotkun, kynjamisrétti, kynþáttamisrétti og einræðistilburði þjálfara meðal ástralska fimleikasambandsins að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem birt var í dag.

Skýrslan er unnin af mannréttindaráði Ástralíu og segir í henni að misnotkun af ýmsu tagi sé hluti af þeirri menningu sem ríki innan fimleikaþjálfunar í landinu. Nefnd eru atriði eins og kynferðismisnotkun, niðurlægjandi orðræða, líkamlegt ofbeldi og niðurbrot tilfinninga. Jafnframt lyfjamisnotkun og líkamsskömm (body-shaming) sem einkum er beint gegn ungu íþróttafólki. 

Mannréttindaráðið mælir með því að sérstök rannsókn verði gerð á ákveðnum og tilgreindum atriðum og að Fimleikasamband Ástralíu sendi frá sér formlega afsökunarbeiðni vegna þessa. Eins þurfi að herða þær reglur sem gilda gagnvart þjálfun og þeim atriðum sem tengjast fimleikaþjálfun í landinu en þjálfarar hafi mikil áhrif á líðan ungs fólks sem æfir fimleika.

Fimleikasamband Ástralíu brást strax við skýrslunni og bað alla þá sem hafa orðið fyrir slíkri mismunun afsökunar sem og fjölskyldur þeirra. Það heitir því að taka upp öll þau atriði, 12 talsins, sem lögð eru til í skýrslunni til að bæta ástandið innan íþróttarinnar.

Rannsóknin hófst í Ástralíu í kjölfar þess að fimleikaiðkendur fóru með málið á samfélagsmiðla í kjölfar þess að lækn­ir banda­ríska landsliðsins í fim­leik­um, Larry Nass­ar, var fund­inn sek­ur um kynferðismisnotkun fyr­ir þrem­ur árum.

Meðal þeirra sem stigu fram er Yasmin Collier en hún lýsti því hvernig henni var gert að afklæðast og standa nakin fyrir framan karlkyns nuddara í fimleikunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert