Leggja gólf í Colosseum

Hringleikahúsið er um tvö þúsund ára gamalt.
Hringleikahúsið er um tvö þúsund ára gamalt. AFP

Ríkisstjórn Ítalíu hefur samþykkt áform um að leggja nýtt gólf í hringleikahúsið fræga, Colosseum, í höfuðborginni Róm. Með nýja gólfinu munu gestir geta staðið þar sem skylmingaþrælar stóðu áður.

Menningarmálaráðherrann Dario Franceschini kynnti verkefnið í gær.

Ítalska verkfræðistofan Milan Ingegneria bar sigur úr býtum í hönnunarútboðinu, en smíða á gólfið úr viði auk þess sem hægt verður að draga það frá til að sýna þær minjar sem liggja undir.

Stefnt er að verklokum árið 2023.

Ráðherrann deilir þessari teikningu af hönnuninni á Twitter.
Ráðherrann deilir þessari teikningu af hönnuninni á Twitter.

Gólfið fjarlægt á 19. öld

Ekkert gólf er sem stendur í þessu tvö þúsund ára gamla mannvirki. Fornleifafræðingar fjarlægðu það á 19. öld og vörpuðu um leið ljósi á fjölda neðanjarðarganga þar sem skylmingaþrælar og dýr máttu bíða áður en blóðsúthellingarnar hófust undir berum himni.

Franceschini segir gólfið munu gera gestum kleift að sjá tignarleika hringleikahússins frá miðju þess.

„Þetta er annað skref í átt að því að endurbyggja mannvirkið,“ segir hann og bætir við að þetta metnaðarfulla verkefni muni hjálpa til við að varðveita fornminjar á sama tíma og hringleikahúsið fái á sig upprunalegri mynd.

mbl.is