Staðan rólegri þrátt fyrir mun fleiri smit

Snærós (t.v. í neðri röð) í góðra vina hópi við …
Snærós (t.v. í neðri röð) í góðra vina hópi við stoppistöðina Íslandstorgið á lestarstöð í Svíþjóð. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir að nýgengi kórónuveirusmita í Svíþjóð sé það næsthæsta í Evrópu gengur lífið þar í landi sinn vanagang að mörgu leyti. Íslenskur stúdent sem búsettur er í Svíþjóð segir stöðuna mjög ólíka þeirri á Íslandi. Meira sé um vinsamleg tilmæli en harðar reglur og fáir noti grímu.

„Þetta er töluvert rólegra en heima á Íslandi þó smitin séu mörg,“ segir háskólaneminn Snærós Axelsdóttir.  

„Ég myndi aldrei segja að það væru einhverjar alvarlegar takmarkanir hérna. Þau takmarka þetta þannig að þau eru með tilmæli um að allir haldi sig heima, spritti sig eins og þeir geta og séu með grímur í almenningssamgöngum.“

Drottninggatan, stór verslunargata sem er iðulega þéttskipuð fólki.
Drottninggatan, stór verslunargata sem er iðulega þéttskipuð fólki. Ljósmynd/Aðsend

Litin smá hornauga fyrir grímunotkun

Snærós segir þó fáa fylgja reglum um grímunotkun og skýtur hún á að um 20% fólks sem ferðist með lestum Svíþjóðar noti andlitsgrímur.

„Grímuskyldan er búin að magnast með mánuðunum. Þegar ég var með grímu í lestinni í byrjun janúar var ég litin smá hornauga og fólk fór líklega að velta því fyrir sér hvort maður væri veikur. Sama má segja um það ef maður sprittaði sig mikið.“

Þá er veitingastöðum almennt lokað klukkan átta í Svíþjóð og fjöldatakmarkanir þannig að einungis fjórir mega sitja við sama borð.

Sótt­varna­stofn­un Evr­ópu held­ur utan um fjölda smita í ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins og Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins. Þar kemur fram að nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa sl. 14 daga í Svíþjóð sé 747,1. Einungis er nýgengi hærra í Kýpur eða 1.221. Til samanburðar er nýgengið hér í landi 39,8.

Sumarið er sannarlega komið í Svíþjóð. Snærós segir fólk almennt …
Sumarið er sannarlega komið í Svíþjóð. Snærós segir fólk almennt halda fjarlægð í almenningsgörðum þar sem vinsælt er að tylla sér og njóta lífsins. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingahópur sem smitaðist af Covid-19

Snærós smitaðist sjálf af Covid í októbermánuði og lentu flestir Íslendingarnir sem hún hittir reglulega í því sama.

„Eiginlega allur íslenski hópurinn sem ég þekki hérna er búinn að fá Covid þannig að við höngum mikið með hvert öðru. Þá er maður svolítið öruggur einhvern veginn. En ég held að manni væri ekkert sama ef maður væri að heimsækja ömmu sína og afa og það væru svona mörg smit í samfélaginu,“ segir Snærós.

„Það var náttúrulega alveg smá skellur að hafa fengið þetta. Við vorum kannski smá kærulaus en við vorum bara að fylgja þeim reglum sem voru til staðar, við vorum ekki að brjóta neinar reglur. Það var vissulega smá „blessing in disguise“ að fá Covid, þegar maður komst heim til sín um jólin. Ég fylltist smá samviskubiti að hafa fengið Covid en það var auðvitað ekkert sem ég gat gert, ég var að fylgja öllum reglum. Þetta var fyrir áramót, þá voru eiginlega engar reglugerðir í gangi og það var bara pakkað af fólki alls staðar,“ segir Snærós.

Í vetur voru skautasvæði opin þrátt fyrir mikinn smitfjölda en …
Í vetur voru skautasvæði opin þrátt fyrir mikinn smitfjölda en skautaleigur lokaðar. Ljósmynd/Aðsend

Fjöldi pennavina á Zoom

Að hennar sögn skiptist sænska þjóðin nokkurn veginn í tvennt í skoðunum sínum á sóttvarnaaðgerðum.

„Mörgum er alveg sama en margir vilja halda sig heima og finnst svolítið erfitt að fólk sé ekki að fylgja tilmælum.“

Snærós er á fyrsta árinu sínu í meistaranámi í umhverfisverkfræði við KTH-háskólann í Stokkhólmi.

„Það eru í raun alveg frekar þröngar reglur í skólunum. Námið er allt á netinu og það er mjög takmakað úrval af stöðum til að læra. Bókasafnið er alveg opið en annað hvert sæti og öll hópaherbergi lokuð. Þá eru stúdentabarir og nestissalir lokaðir,“ segir Snærós um stöðuna á náminu.  

Af þessum sökum hafa nemarnir ekki náð að kynnast vel.

„Maður á bara ótrúlega mikið af nútímalegum pennavinum í gegnum Zoom,“ segir Snærós sem vonar að staðan fari að breytast og bjartari tímar séu fram undan, án veirunnar skæðu.

mbl.is