20 látnir og tugir slasaðir

Að minnsta kosti 20 létust og tugir slösuðust þegar lestarbrú hrundi í Mexíkóborg. Lest var á brúnni þegar hún hrundi að sögn yfirvalda. Nokkrir lestarvagnar fóru niður með brúnni og varð að minnsta kosti ein bifreið undir þeim en fjölfarin umferðargata er undir lestarbrúnni. 

Björgunaraðgerðir standa yfir og eru slökkviliðsmenn og björgunarsveitarfólk að störfum á staðnum. Slysið varð á Olivos-lestarstöðinni. 

Borgarstjórinn í Mexíkóborg, Claudia Sheinbaum, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að vitað sé að 15 eru látnir og um 70 eru slasaðir. Óttast er að mun fleiri hafi látist þar sem talið er að margir séu enn fastir undir flaki lestarvagnanna. 

Þessi frétt hefur verið uppfærð - áður var talað um að 15 hefðu látist en nú er ljóst að þeir eru 20 hið minnsta.

Frá slysstað.
Frá slysstað. AFP
mbl.is