Belgískur bóndi færði Frakkland til

Ljósmynd af landamærasteininum sem belgískur bóndi færði á franska frón.
Ljósmynd af landamærasteininum sem belgískur bóndi færði á franska frón. Ljósmynd/David Lavaux

Belgískur bóndi hefur verið staðinn að því að færa landamærastein á milli Belgíu og Frakklands yfir á franska jörðu með þeim afleiðingum að Frakkland skrapp eilítið saman, samkvæmt breska ríkisútvarpinu.

Ástæða bóndans fyrir uppátæki sínu var sú að steinninn hafi verið fyrir þeirri leið sem hann var að keyra á dráttarvél sinni. Ákvað hann því að greiða sér leið með því að færa steininn. Hending ein réð því að íbúi í grenndinni með áhuga á sögu nágrennisins sem hafi tekið eftir færslunni á steininum.

Gerði Belgíu stærri og Frakkland smærra

Atvikið orsakaði ekki neinar milliríkjadeilur heldur hafa embættismenn beggja ríkja gert sitt besta að brosa og hlæja að uppátæki bóndans. „Hann gerði Belgíu stærri og Frakkland smærra, þetta er ekki góð hugmynd“ sagði David Lavaux, bæjarstjóri belgíska smábæjarins Erquelinnes við frönsku sjónvarpsstöðina TF1.

Lavaux benti á að slíkar ákvarðanir myndu oftast nær valda vandamálum milli landeiganda, hvað þá nágrannaríkja. Franskur starfsbróðir hans í smábænum Aurélie Welonek sagði í kímni við franska héraðsblaðið La Voix Du Nord að hann byggist við að stjórnvöld ríkjanna gætu komið í veg fyrir að styrjöld myndi brjótast vegna færslu steinsins.

Landamæri Frakklands og Belgíu voru ákvörðuð árið 1820, í kjölfar …
Landamæri Frakklands og Belgíu voru ákvörðuð árið 1820, í kjölfar ósigurs Napóleons við Waterloo. AFP

Belgísk yfirvöld ætla að hafa samband við bóndann uppátækjasama og biðja hann um að færa steininn á sinn upprunalega stað. Ef bóndinn verður ekki við beiðni yfirvalda gæti hann átt von á lögsókn belgískra yfirvalda. Annars eru líkur á að belgíska utanríkisráðuneytið þurfi að endurlífga nefnd um landamæri Frakklands og Belgíu, sem ekki hefur verið virk í tæpa öld, til þess að útkljá málið.   

mbl.is