Sá son sinn myrtan

Miðbærinn í Halden, um 31.000 íbúa bæ rúmlega 100 kílómetra …
Miðbærinn í Halden, um 31.000 íbúa bæ rúmlega 100 kílómetra suðaustur af Ósló. Kona á fimmtugsaldri er grunuð um að hafa myrt bróður sinn á heimili þeirra systkina í miðbænum í gærkvöldi að móður þeirra viðstaddri. Ljósmynd/Wikipedia.org

Kona á fimmtugsaldri, sem handtekin var í Halden í Noregi í gærkvöldi, eftir að neyðarlínu barst tilkynning um látna manneskju í íbúð í miðbænum, er grunuð um að hafa myrt bróður sinn, sem er sá látni. Hefur hún gengist við verknaðinum í yfirheyrslum hjá lögreglu, en móðir þeirra systkina var gestkomandi í íbúðinni þegar sló í brýnu.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun heyrðu nágrannar öskur frá íbúðinni og að einhver hrópaði þar á hjálp. Lýsti kona, sem norska ríkisútvarpið NRK ræddi við, skelfingarópunum svo, að henni hefði heyrst sem barist væri upp á líf og dauða.

Hinn látni var á fimmtugsaldri eins og systirin handtekna, en þau systkinin leigðu íbúðina saman og bjuggu þar. Sú sem hrópaði á hjálp var hins vegar móðirin sem varð vitni að vígi sonar síns, en lögreglan í Halden hefur nú greint frá því að drápsvopnið hafi verið hnífur.

„Hún er í miklu áfalli yfir því sem hefur gerst. Hún syrgir og á erfitt með að átta sig á þessum atburði,“ segir Hans Henrik Pettersen, réttargæslulögmaður móðurinnar, í samtali við NRK, en hann heimsótti skjólstæðing sinn í dag og átti stutt samtal við konuna sem hefur stöðu vitnis í málinu en hefur ekki gefið skýrslu hjá lögreglu enn sem komið er.

Mikill viðbúnaður í bænum

Lögregla hafði uppi mikinn viðbúnað eftir að tilkynning barst til neyðarlínunnar á ellefta tímanum í gærkvöldi að norskum tíma. Fóru sex lögreglubifreiðar á vettvang auk sjúkrabifreiða og slökkviliðs auk þess sem sjúkraþyrla lenti í miðbænum kæmi til þess að flytja þyrfti einhvern á sjúkrahús til Óslóar. Þá var nokkrum götum lokað í nágrenni íbúðarinnar.

Samkvæmi var í íbúðinni þegar voðaatburðurinn átti sér stað og skrifar dagblaðið VG að þar hafi verið afmælisveisla en lögregla hefur ekki viljað staðfesta það.

Kristin Morch, verjandi systurinnar, vill ekki tjá sig um hvað skjólstæðingur hennar hefur sagt lögreglu, annað en að sekt grunuðu er viðurkennd. „Henni líður auðvitað skelfilega. Hún hefur gert grein fyrir sínum þætti málsins í dag og ég met það svo að hún sé samstarfsfús við lögreglu,“ segir Morch við NRK.

NRK

VG

Dagbladet

TV2

mbl.is