Stjórnarkreppa fyrir botni Miðjarðarhafs

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels að ávarpa stuðningsmenn sína.
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels að ávarpa stuðningsmenn sína. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur frest þar til miðnættis í kvöld að staðartíma til þess að mynda ríkisstjórn. Ef ekki verður úr stjórnarviðræðum hans gæti forseti landsins veitt öðrum flokki stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boðið. CNN greinir frá þessu.

Netanjahú hefur meðal annars reynt að semja við leiðtoga Yamina-flokksins, Naftali Bennett. Bennett hefur hins vegar hafnað boðum Netanjahús, en meðal þess sem Net­anja­hú bauð Bennett var víxlseta þeirra í forsætisráðherraembættinu.

Aðild Bennetts og flokks hans að ríkisstjórn Netanjahú myndi samt ekki duga til þess að tryggja forsætisráðherranum meirihluta á þingi Ísraelríkis, Knesset. Einnig þyrfti hann annað hvort stuðning stakra þingmenn stjórnarandstöðunnar eða flokks strangtrúarmanna.

Stuðningur Sameinaða arabalistans við mögulega stjórn Netanjahús kemur líklega í veg fyrir að strangtrúarmenn vilji starfa með honum, en þeir hafa hingað til útilokað að sitja í sömu stjórn og Sameinaði arabalistinn.

Fjórðu kosningarnar á tveimur árum

Ef fresturinn rennur út í kvöld getur Netanjahú beðið forseta Ísraels, Reuven Rivlin, um tveggja vikna framlengingu á samningstímabilinu. Þá er talið mögulegt að Rivlin gæti neitað Netanjahú um slíkan frest og í staðinn veitt Yair Lapid umboðið.

Lapid, formaður næststærsta flokksins á þinginu, hefur sjálfur verið að semja við formenn hina flokkana, þar á meðal Naftali Bennett.  

Kosið var á ísraelska þingið í fjórða sinn á tveimur árum 23. mars og hefur Netanjahú sem sitjandi forsætisráðherra enn ekki tekist að mynda starfandi ríkisstjórn. Viðloðandi stjórnarkreppa hefur verið í Ísrael síðan vorið 2019 þegar ekki tókst að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningar.

Eftir tvær aðrar þingkosningar í viðbót tókst Netanjahú að mynda ríkisstjórn með Bláhvíta bandalaginu. Sú ríkisstjórn féll innan árs vegna deilna um fjárlög ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert