Endurnýttu sýnatökupinnana

AFP

Nokkrir starfsmenn lyfjafyrirtækis hafa verið handteknir í Indónesíu sakaðir um að hafa þvegið og selt aftur notaða Covid-pinna sem notaðir eru við sýnatöku í nefi. Talið er að  notaðir sýnapinnar hafi verið nýttir við skimun á allt að níu þúsund farþegum á flugvellinum í Medan. 

Lyfjafyrirtækið Kimia Farma, sem er í eigu indónesíska ríkisins, á yfir höfði sér skaðabótamál af hálfu farþega sem pinnarnir voru notaðir á. 

Ítrekað greindir með Covid-19

Að sögn lögreglu telur hún að svikin hafi verið í gangi frá því í desember á Kualanamu-flugvellinum í Medan á Norður-Súmötru. Farþegar verða að geta framvísað neikvæðu skimunarprófi vilji þeir fljúga í Indónesíu og flugvellir landsins bjóða upp á skimun fyrir flug fyrir þá sem það vilja. 

Flugvallaryfirvöld hafa notað skyndipróf sem mæla mót­efna­vaka (antig­en) en Kimia Farma hefur annast dreifingu þeirra. 

Í kjölfar kvartana farþega um að þeir hafi fengið ranga jákvæða niðurstöðu úr prófun á flugvellinum ákvað lögreglan að senda lögreglumann dulbúinn sem ferðamann í slíka skimun. Þegar hann fékk jákvæða niðurstöðu úr prófinu mættu fleiri lögreglumenn á vettvang og gerðu húsleit á skimunarstaðnum. Þar fundu þeir notuð skimunarpróf sem höfðu verið endurnýtt. 

Fimm starfsmenn Kimia Farma, þar á meðal framkvæmdastjórinn í Medan, voru handteknir í síðustu viku. Þeir eru sakaðir um að hafa brotið heilbrigðis- og neytendalög með því að þvo nefpinna og endurpakka þeim sem nýrri vöru samkvæmt frétt BBC.
mbl.is