Hlaupabretti innkölluð vegna slysa og dauðsfalls

Hlaupabretti geta verið hættuleg. Myndin er úr safni.
Hlaupabretti geta verið hættuleg. Myndin er úr safni. AFP

Fyrirtækið Peloton hefur innkallað hlaupabretti sín af tegundinni Tread+ og Tread, innan við mánuði eftir að Neytendastofa Bandaríkjanna sagði að tugir slysa og eitt dauðsfall tengdust brettunum.

Neytendastofan varaði við notkun brettanna í apríl og hvatti þá sem eiga slík tæki til að hætta undir eins að nota þau.

Pelton hefur boðist til að endurgreiða hlaupabrettin en með þeim fylgir 32 tommu snertiskjár þar sem hlauparar geta fengið leiðbeiningar frá fagaðilum, að sögn New York Times. 

John Foley, forstjóri Peloton, sagði í yfirlýsingu í dag að fyrirtækið hefði „gert mistök” með því að berjast gegn kröfum bandarísku stofnunarinnar um að innkalla hlaupabrettin og baðst hann afsökunar á því að hafa ekki reynt ekki að starfa betur með þeim strax frá byrjun. 

Brettin voru til sölu í Bandaríkjunum frá nóvember í fyrra þangað til í mars.

Neytendastofan sagðist hafa fengið tilkynningar um 72 tilvik þar sem fullorðnir, börn, gæludýr og hlutir slösuðust á brettinu. 29 tilvikanna tengdust börnum og þar af lést sex ára drengur.

Eftir dauðsfallið hvatti Peloton fólk til að halda hlaupabrettunum frá börnum. Fyrirtækið vinnur nú að endurbótum á tækjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert