Trump mættur á netið að nýju

AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur sett á laggirnar nýjan samskiptavef þar sem fram kemur að efni Trumps verði birt án ritskoðunar.

Trump var bannaður á Twitter og vikið tímabundið af Facebook og YouTube eftir óeirðirnar í og við þinghúsið í Washington 6. janúar. Frá þeim tíma hefur Trump tjáð sig opinberlega með yfirlýsingum og mun nýi vefurinn hýsa þær. Þar geta notendur jafnframt líkað við það sem þeir lesa og deilt á Twitter- og Facebook-síðum sínum að því er segir á vef BBC.

Facebook mun klukkan 13 í dag greina frá ákvörðun um framhaldið hvað varðar veru Trumps á samfélagsmiðlinum. Ákvörðunin er tekin af sérstöku ráði Facebook sem á að vera sjálfstætt frá miðlinum sjálfum. Ráðið var sett á laggirnar af stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg, og er því ætlað að taka erfiðar ákvarðanir um hvað megi birta á Facebook og hvað ekki. Niðurstaða ráðsins er bindandi og ekki hægt að áfrýja henni. 

Vefur Donalds Trumps

mbl.is