Tvö varðskip send til Jersey

Breski flotinn hefur sent tvö varðskip til að gæta Jersey …
Breski flotinn hefur sent tvö varðskip til að gæta Jersey í fiskveiðideilum Breta og Frakka. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, ákvað í kvöld að senda tvö varðskip breska flotans til Jersey-eyjar á Ermarsundi vegna ótta um að franskir sjómenn muni reyna að loka fyrir aðgang skipa að höfn eyjarinnar á morgun, fimmtudag. 

Frönsk stjórnvöld vöruðu við því á þriðjudaginn að þau væru að íhuga refsiaðgerðir gagnvart Bretum og Jersey eftir að bresk stjórnvöld kynntu nýjar reglur sínar um aðgang franskra fiskiskipa að miðunum í kringum Ermarsunds-eyjarnar þrjár. Munu Frakkar meðal annars íhuga að loka fyrir rafmagnsaðgang Jersey, en eyjan sækir allt að 95% raforku sinnar til Frakklands. 

Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar sagði í dag að slíkar hótanir væru óásættanlegar og langt umfram tilefni. Þá ræddi Johnson við John Le Fondre, formann heimastjórnar Jersey, um stöðuna og lýsti yfir óbilandi stuðningi sínum við eyjuna.

Johnson sagði í tilkynningu sinni í dag, að hann hefði sent skipin til eyjarinnar til vonar og vara, og bætti við að það yrði óásættanlegt ef setið verður um höfnina. Um 100 frönsk veiðiskip hafa gefið til kynna að þau muni taka þátt í mótmælaaðgerðunum á morgun, en Dimitri Rogoff, yfirmaður fiskveiða við Normandí, segir tilganginn ekki þann að setja hafnbann á Jersey, og að öll skipin muni snúa aftur um eftirmiðdaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert