230 milljónir bættust í hóp fátækra

Yfir 20 milljónir hafa smitast af Covid-19 á Indlandi.
Yfir 20 milljónir hafa smitast af Covid-19 á Indlandi. AFP

Um það bil 230 milljónir Indverja bættust í hóp fátækra vegna heimsfaraldur kórónuveirunnar í fyrra. Ungt fólk og konur urðu verst úti og samkvæmt nýrri skýrslu lítur allt út fyrir að núverandi önnur bylgja muni gera illt verra.

Þá skilgreinir skýrslan þá sem lifa á minna en 375 rúpíum (um það bil 635 krónum) á dag sem fátæka. „Þó að tekjur hafi lækkað heilt yfir hefur faraldurinn haft hvað mest áhrif á fátækari heimili,“ segir í skýrslunni.

100 milljónir manna hafa misst vinnuna síðan útgöngubann hófst á Indlandi í mars, skýrsla frá Azim Premji háskóla í Bangalore, sem kom út í gær, segir að í lok árs muni 15 prósent þeirra ekki enn vera búin að fá vinnu.

Samkvæmt rannsókninni eru konur verst settar en áætlað er að 47 prósent kvenna muni ekki finna vinnu jafnvel þó svo að öllum faraldurstengdum takmörkunum verði aflétt.

Talið var að um 50 milljónir Indverja myndu losna úr fátækt á síðasta ári en þess í stað sáu 20% fátækustu heimilanna allar tekjur sínar hverfa í apríl og maí þegar fyrirtæki lokuðu.

„Það er óþarfi að taka það fram en seinni bylgjan mun gera hlutina verri,“ sagði Amit Basole, einn höfunda skýrslunnar.

„Við komumst að því að bráðnauðsynlegt er að auka ríkisstyrk núna af tveimur ástæðum – til að bæta upp tapið sem varð á fyrsta ári og vegna áhrifa seinni bylgjunnar,“ segir í skýrslunni.

Höfundar skýrslunnar hvöttu Nýju Delí til að að bjóða upp á ókeypis matvörur og peningastyrki til viðkvæmustu heimilanna auk þess að hrinda af stað atvinnuáætlun í þeim héruðum sem urðu fyrir mestum áhrifum.

mbl.is