Ítrekaði stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Úkraínu. Þar vilja Bandaríkjamenn sýna heimamönnum og sjálfstæði þeirra stuðning í ljósi þess að Rússar hafa fjölgað mjög hermönnum við landamærin.

Blinken byrjaði daginn á því að hitta Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu. „Það er einföld ástæða fyrir veru minni hér, sem er, fyrir hönd Bidens forseta, að minna sterklega á samstarf ríkjanna og okkar stuðning við fullveldi Úkraínu og sjálfstæði,” sagði Blinken við Kuleba.

Hann bætti við að stjórnvöld í Washington munu „starfa með ykkur og halda áfram að styðja við lýðræði ykkar, byggingu stofnana og við aðgerðir ykkar gegn spillingu”.

Dmytro Kuleba (til hægri) og Antony Blinken á fundi þeirra …
Dmytro Kuleba (til hægri) og Antony Blinken á fundi þeirra í Kænugarði í morgun. AFP

Kuleba sagði stjórnvöld í Úkraínu vera afar þakklát fyrir stuðninginn sem þjóðin hefur fengið frá Bandaríkjunum í baráttu við aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum. Flestir telja þá njóta stuðnings rússneska hersins og stjórnvalda í Kreml.

Áður sagði Blinken í samtali við BBC er hann var staddur í Bretlandi vegna fundar með utanríkisráðherrum sjö helstu iðnríkja heims að Bandaríkin muni bregðast við kæruleysislegum eða grimmum aðgerðum Rússa.

Antony Blinken á fundi sínum með utanríkisráðherra Úkraínu.
Antony Blinken á fundi sínum með utanríkisráðherra Úkraínu. AFP

Antony Blinken sagði að Bandaríkjamenn hafi fylgst vel með meðferðinni á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní, afskiptum Rússa af kosningum og fleiri málum.

„Við myndum kjósa stöðugri og fyrirsjáanlegri samskipti,” sagði Blinken við BBC.

Blinken er hann var staddur í Bretlandi.
Blinken er hann var staddur í Bretlandi. AFP
mbl.is