Sex konur myrtar á fimm vikum

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. Sænsk stjórnvöld íhuga nú harðari refsingar …
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. Sænsk stjórnvöld íhuga nú harðari refsingar gegn heimilisofbeldi. AFP

Oft er litið á Svíþjóð sem fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar kynjajafnrétti en röð morða gegn konum þar í landi hafa endurvakið umræðuna um heimilisofbeldi á sænskum heimilum.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur fjallað um málefnið, en sex morð á konum hafa verið framin á síðustu fimm vikum. Morðin eru ólík hvað varðar aldur og staðsetningu fórnarlambanna en eitt eiga fórnarlömbin sameiginlegt: konurnar þekktu vel þann sem var handtekinn fyrir morðið. Tvö af morðunum voru framin á almannafæri, eitt í miðbæ strjálbýlis í syðri hluta landsins og annað við strætisvagnastöð við háskólabæinn Linköping. Í  Flemingsberg, einu af úthverfum Stokkhólms, var kona myrt í íbúð sem hún deildi með fjórum ungum börnun.

Vaxandi umræða hefur verið í Svíþjóð um aukið ofbeldi gegn konum á síðustu misserum, en fjöldi skráðra líkamsárása gegn konum óx um meira en 15% á milli áranna 2019 og 2020. Jafnréttismálaráðherra Svíþjóðar, Marta Stenevi, segir í viðtali við BBC að henni blöskrar ofbeldishrinunnar en að hún komi henni ekki á óvart. „Við höfum náð miklum árangri í jafnrétti kynjanna í Svíþjóð en við búum samt við samfélagsþætti sem bæla niður konur.“

Í lok mánaðarins er búist við að ný nefnd birti endurskoðun á tíu ára áætlun sænskra stjórnvalda til þess að auka öryggi kvenna í Svíþjóð. Búist er við að nefndin mæli með strangari hegningarlöggjöf fyrir brot af þessu tagi, þar á meðal lengri fangelsisvist og aukin notkun nálgunarbanna.

Leitað að útskýringum

Sumir sænskir stjórnmálamenn, þar á meðal leiðtogi Svíþjóðardemókrata Jimmie Åkesson, hafa bent á fjölgun innflytjenda í Svíþjóð sem útskýringu fyrir auknu ofbeldi gegn konum. Í kappræðum leiðtoga stjórnmálaflokka sem var sjónvörpuð var í síðustu viku hvatti hann til þess að grípa þurfi til herferðar til þess að koma í veg fyrir innflutning gilda sem studdu ofbeldi gegn konum.

Aðrir benda á hlutverk Covid-19 faraldursins og áhrifa hans. „Þær leitast ekki eftir þeirri hjálp sem þær myndu annars fá ef samfélagið væri opið,“ segir Jenny Westerstrand, formaður Roks, sænsku landssamtökum kvennaathvarfa. „Við teljum að konurnar haldi áfram í samböndum og hlutirnir eru að stigmagnast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert