Varðskipin á leið aftur til Bretlands

Frönsku skipin kveikja eld í mótmælaskyni.
Frönsku skipin kveikja eld í mótmælaskyni. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fyrirskipaði í dag að bresku varðskipin tvö sem Johnson sendi til Jersey-eyjar á Ermasundi skyldu snúa aftur til Bretlands. Frönsku sjómennirnir sneru einnig heim á leið án þess að loka fyrir aðgang skipa að höfn eyjarinnar.

Johnson hafði óttast að franskir sjómenn myndu loka fyrir aðgang að höfninni og sendi hann því í gærkvöldi tvö varðskip á svæðið. Í kjölfarið sendi Frakkland tvö skip frönsku strandgæslunnar á svæðið. Þá mótmæltu 50 franskir bátar á svæðinu í dag.

Þegar frönsku skipin hörfuðu í dag fyrirskipaði Johnson að bresku varðskipin skyldu einnig snúa heim.

Skrifstofa Johnson gaf út tilkynningu þar sem segir að varðskipin snúi aftur til hafnar í Bretlandi þar sem ástandið hefur verið leyst í bili. „Við erum enn í biðstöðu ef Jersey skyldi þurfa frekari aðstoð,“ segir í tilkynningunni.

Jersey liggur rétt við norðurströnd Frakklands og fyrir Brexit gátu franskir bátar veitt við eyjuna.

AFP fréttastofan segir þetta óneitanlega minna á þorskastríð Íslendinga og Breta á árunum 1958-1976.

Um 60 franskir bátar komu saman til að mótmæla.
Um 60 franskir bátar komu saman til að mótmæla. AFP
mbl.is