Kærir Noreg til MDE

Jensen gengur í sal 250 í Héraðsdómi Óslóar 18. september …
Jensen gengur í sal 250 í Héraðsdómi Óslóar 18. september 2017 til að hlýða á dómsorð. Þar hlaut hann 21 árs dóm í fyrra skiptið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Eirik Jensen, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í lögreglunni í Ósló, hefur kært norska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann hyggst freista þess að ná fram dómi gegn Noregi fyrir óréttláta málsmeðferð í langvinnum réttarhöldum sem lauk með því að hann hlaut 21 árs dóm í Lögmannsrétti Borgarþings í júní í fyrra.

Var Jensen dæmdur fyrir hlutdeild í innflutningi á 14 tonnum af hassi í samstarfi við Gjermund Cappelen, stórtækan fíkniefnainnflytjanda frá Bærum, sem sjálfur hlaut 15 ára dóm fyrir innflutning á 16,7 tonnum tímabilið 1993 – 2013 en saksóknari fór fram á vægari refsingu vegna játningar Cappelens og þess að hann benti á Jensen sem samstarfsmann sinn.

Jensen kærir til MDE fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveða á um réttláta málsmeðferð og að hver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð, og 8. gr. sáttmálans um rétt manns til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis, en ferill málsins um réttarkerfi Noregs hefur verið býsna langur og mikið fjallað um Jensen og sambýliskonu hans, Rögnu Lise Vikre, á opinberum vettvangi.

Hundsaði niðurstöðu kviðdóms

Eftir margra ára lögreglurannsókn voru Jensen og Cappelen ákærðir árið 2017 og féll dómur yfir þeim í Héraðsdómi Óslóar 18. september þá um haustið, sem Cappelen undi en Jensen áfrýjaði til lögmannsréttar með verjanda sinn John Christian Elden sér við hlið.

John Christan Elden, þáverandi verjandi Jensens, í forgrunni við dómsuppkvaðninguna …
John Christan Elden, þáverandi verjandi Jensens, í forgrunni við dómsuppkvaðninguna 2017. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þegar kviðdómur, sem nú hefur verið aflagður í Noregi, skipaður tíu einstaklingum komst að þeirri niðurstöðu fyrir Lögmannsrétti Borgarþings 28. janúar 2019, að Jensen skyldi vera sýkn af hassinnflutningnum, en sekur um stórfellda spillingu í opinberu starfi, varð sá fáheyrði atburður að Kristel Heyerdahl dómsformaður vék niðurstöðu kviðdóms til hliðar hvað fíkniefnahluta ákærunnar snerti.

„Dóm­ur­inn tel­ur það hafið yfir vafa að Jen­sen er sek­ur um fíkni­efna­brot og vík­ur niður­stöðu kviðdóms til hliðar. Málið verður rekið á nýj­an leik frá grunni,“ úrskurðaði Heyerdahl, sem Elden verjandi taldi með öllu ólíðandi.

„Þarna segja þrír lög­lærðir ein­stak­ling­ar bók­staf­lega „Þetta kunn­um við bet­ur en þið,“ og traðka þar með á valdi þjóðar­inn­ar til að dæma í mál­um meðbræðra sinna. Svona virk­ar rétt­ar­ríki ekki sem á að eiga ræt­ur sín­ar hjá þjóðinni og vera fyr­ir þjóðina,“ sagði hann í samtali við mbl.is í kjölfar úrskurðarins.

Gjer­mund Capp­elen ræðir við verj­anda sinn, Benedict de Vibe, en …
Gjer­mund Capp­elen ræðir við verj­anda sinn, Benedict de Vibe, en hon­um á vinstri hönd sit­ur hinn verj­and­inn, Kaja de Vibe Mall­ing, en þau verj­end­ur eru feðgin. „Við skul­um bara sjá hvað dóm­ar­inn seg­ir,“ sagði Capp­elen salla­ró­leg­ur þegar frétta­menn inntu hann spá­dóma um niður­stöðuna haustið 2017. Hann hlaut 15 ár. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þar með þurfti að reka allt málið á nýjan leik fyrir millidómstiginu. Ákaflega sjaldgæft var, á meðan kviðdómur var við lýði í norskum refsimálum, að dómarar hundsuðu niðurstöðu þeirra, gerðist það 38 sinnum í 659 málum, eða í um 5,6 prósentum tilfella.

Hlaut Jensen sem fyrr segir 21 árs dóm á nýjan leik þegar málsmeðferð fyrir Lögmannsrétti Borgarþings lauk í annað skiptið í fyrrasumar og hafnaði Hæstiréttur Noregs áfrýjunarbeiðni sakborningsins, sem er á sjötugsaldri og hefur neytt allra ráða til að knýja fram sýknu í þessu langvinna sakamáli sem vakið hefur þjóðarathygli í Noregi, en hópur stuðningsmanna Jensens á Facebook telur 24.000 manns.

„Ég er á því að víða sé pottur brotinn við rannsókn málsins,“ segir Jensen í samtali við Nettavisen í samtali um kæruna til mannréttindadómstólsins. Gagnrýnir Jensen þar vinnubrögð rannsóknardeildar lögreglunnar í innri málefnum, Spesialenheten for politisaker, og kveður allan málatilbúnað deildarinnar byggjast á framburði Cappelens um málsatvik.

„Þegar réttinum hefur í þremur málsmeðferðarlotum verið kynnt atvikalýsing sem ekki kemur heim og saman er málið rangt frá upphafi. Sönnunarbyrðinni var snúið við. Ég þurfti að sanna mitt sakleysi. Það er jú þeirra [rannsóknardeildarinnar] að sanna að ég sé sekur,“ segir Jensen.

Hann er nú kominn með nýjan lögmann sér til fulltingis, Sigurd Klomsæt, sem telur margt í málinu krefjast gagngerrar athugunar.

Kveður dómstóla hafa brugðist

Klomsæt heimsótti Jensen í fangelsið í Kongsvinger á þriðjudaginn og fékk undirritun hans á kæruna til Strassborgar sem var póstlögð á miðvikudaginn. „Við teljum norsk lög hafa verið brotin í málinu og eins ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Við teljum hafa skort aðgang að gögnum í eigin máli, sem gerði málsvörn að hluta til ómögulega. Önnur rangindi við málsmeðferðina eru þess eðlis að krafan um réttláta málsmeðferð telst ekki hafa verið uppfyllt gagnvart Jensen, hvorki fyrir Héraðsdómi Óslóar, Lögmannsrétti Borgarþings né hjá Hæstarétti,“ segir Klomsæt og vísar þar til synjunar Hæstaréttar á að taka málið fyrir.

Eirik Jensen hefur varið drjúgum tíma í þungum þönkum við …
Eirik Jensen hefur varið drjúgum tíma í þungum þönkum við rekstur umfangsmikils og mjög tímafreks sakamáls sem snerist um aðild hans að innflutningi 14 tonna af hassi. AFP

Hann telur norska dómstóla hafa brugðist skyldum sínum í málinu og með því brotið gegn mannréttindum Jensens. „Þeirra mannréttinda, sem við nú krefjumst Jensen til handa, hef ég áður krafist fyrir mannréttindadómstólnum og haft sigur,“ segir Klomsæt að lokum.

Guro Glærum Kleppe, næstráðandi rannsóknardeildar í innri málefnum lögreglunnar og ákærandi í málinu á síðari stigum þess, forveri hennar þar var Lars Erik Alfheim, vildi ekki tjá sig um málið þegar Nettavisen fór þess á leit.

Nettavisen

NRK

VG

Dagsavisen

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert