Liz Cheney gæti tapað formennsku þingflokks repúblikana

Liz Cheney, formaður þingflokks Repúblikana í fulltrúadeildinni, en hún gæti …
Liz Cheney, formaður þingflokks Repúblikana í fulltrúadeildinni, en hún gæti tapað embætti sínu vegna gagnrýni hennar á Donald Trump. AFP

Stjórnmálaferill Liz Cheney virðist vera senn á enda en búist er við því að repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings muni brátt kjósa að fjarlæga hana úr formennsku þingflokksins. The Guardian greinir frá þessu.

Liz Cheney, dóttir fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna Dick Cheney, stendur höllum fæti meðal flokkssystkina sinna en hún hefur verið gagnrýnd fyrir að styðja ekki Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hún hefur meðal annars ekki tekið undir staðhæfingum forsetans fyrrverandi um að kosningasvindl demókrata hafi kostað hann forsetaembættið í síðustu forsetakosningum.

Cheney hefur verið harðlega gagnrýnd af öðrum leiðtogum þingflokks repúblikana. Leiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, Kevin McCarthy, sagði í viðtali við Fox News þegar hann hélt að upptökur væru ekki í gangi að hann hefði ekki lengur trú á henni.

Þingmaðurinn Jim Jordan, æðsti nefndarmaður repúblíkana í stjórn­skip­un­ar­nefnd, sagði í viðtali við Fox News að þingflokkurinn gæti ekki haft formann sem fer með röksemdir demókrata eða hefur aðra skoðun á málefni heldur en nítíu prósent flokksins. 

Trump svarar á samskiptavef sínum

Trump hefur einnig tjáð sig um Liz Cheney. Hefur hann birt þrjár færslur á nýjum samskiptavef sinni þar sem hann gagnrýnir afstöðu þingmannsins frá Wyoming. Hann hefur lýst yfir ánægju um meint stuðningsleysi kjósenda í heimaríki hennar og hampar keppinaut hennar um formennsku þingflokksins, Elise Stefanik.

Stefanik, sem varð yngsti þingmaður Bandaríkjaþings í sögu þess árið 2014, hefur lýst sjálfri sér sem hefðbundnum íhaldsmanni sem myndar sína eigin skoðun á málunum. Hún þótti pólitísk hófsmanneskja og gagnrýndi meðal annars innflytjendabann Trumps.

„Hún var ung, hún var gáfuð og hún tók þá útreiknuðu ákvörðun að stökkva á Trump-lestina til þess að bæta pólitískan framtíðarhag hennar.“ Svona lýsir fyrrverandi samskiptastjóri repúblikana á þingi, Tara Setmayer, henni í viðtali við The Guardian. Hún bætir við „ef þetta er ekki dæmi um að selja sál þína fyrir pólitískan hentugleika, þá veit ég ekki hvað annað væri.“

mbl.is