Skrifaði bréf til Sturgeon

Boris bregst við niðurstöðum kosninganna í Skotlandi.
Boris bregst við niðurstöðum kosninganna í Skotlandi. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands skrifaði í dag bréf til Nicolu Sturgeon, leiðtoga Skoska þjóðarflokksins, þar sem hann óskaði henni til hamingju með niðurstöður kosninganna sem haldnar voru á fimmtudag.

Hann bað hana einnig að vinna með sér þegar horft væri fram á veginn.

Lokatölur kosninganna í Skotlandi gáfu flokki Sturgeon 64 sæti á þinginu í Edinborg. Aðeins eitt sæti hefði þurft til viðbótar til að tryggja flokknum hreinan meirihluta.

Kallar eftir annarri atkvæðagreiðslu

Fyrr í dag sagði Sturgeon niðurstöðuna gefa til kynna að grundvöllur væri fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi. Á sama tíma hefðu stjórnvöld í Lundúnum engan grundvöll til að hindra það að hún ætti sér stað.

„Ég trúi því af ástríðu að hagsmunum fólks í Bretlandi og þá sérstaklega í Skotlandi sé best þjónað þegar við vinnum saman,“ skrifaði Johnson í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert