Táningsstúlkur drepnar í sprengjuárás

Nánir ættingjar syrgja þá sem létust í árásinni.
Nánir ættingjar syrgja þá sem létust í árásinni. AFP

Sprenging utan við grunnskóla stúlkna í afgönsku höfuðborginni Kabúl varð að minnsta kosti þrjátíu að bana í dag. Tugir fleiri eru særðir eftir árásina. Nemendur eru á meðal fórnarlamba.

Bandaríkjaher er um þessar mundir að vinna að því að taka á brott úr landinu, en 2.500 hermenn á vegum Bandaríkjanna eru enn í landinu. Friðarviðræður á milli afgönsku ríkisstjórnarinnar og talíbana, til að binda enda á áratugalangt stríð, hafa þó ekki tekist.

„Fleiri en þrjátíu nemendur og aðrir samlandar okkar hafa verið drepnir, og yfir fimmtíu til viðbótar eru særðir. Fjöldi látinna fer hækkandi,“ tjáir talsmaður innanríkisráðuneytisins fréttamönnum.

Fleiri tugir eru særðir.
Fleiri tugir eru særðir. AFP

Kennir talíbönum um árásina

„Ég sá mörg blóðug lík í ryki og reyk, á meðan margir hinna særðu öskruðu af sársauka,“ hefur AFP eftir konu sem komst lífs af úr sprengingunni. Bætir hún við að flest fórnarlömbin hafi verið stúlkur á táningsaldri sem voru einmitt að ljúka skóladeginum.

„Ég sá konu leita á meðal líkanna og kalla eftir dóttur sinni. Svo fann hún blóði drifið veski dóttur sinnar, og féll þá í yfirlið og til jarðar.“

Engin samtök hafa lýst voðaverkinu á hendur sér en forsetinn Ashraf Ghani kennir talíbönum um árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert