Þrír nýnasistar ákærðir í Frakklandi

AFP

Þrír félagar í frönskum nýnasistasamtökum hafa verið ákærðir fyrir að undirbúa árás á félagsheimili frímúrara. 

Fólkið, tveir karlar 29 og 56 ára, og 53 ára gömul kona, var ákært í gærkvöldi grunað um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk. Þrír til viðbótar voru einnig handteknir á þriðjudag, tveir karlar og kona. Það fólk hefur verið látið laust úr haldi. 

Fólkið tilheyrir samtökum sem nefnast Honneur et nation og er talið að fólkið hafi verið að undirbúa árás en ekki á næstunni samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar. Þau voru handtekin á grundvelli samskipta sín á milli og eins að þau höfðu verið að viða að sér upplýsingum um sprengiefni og kannað aðstæður þar sem fremja átti ódæðið. 

Undanfarin ár hafa saksóknarar á sviði hryðjuverkaógnar í Frakklandi rannsakað og ákært nokkra liðsmenn slíkra öfgasamtaka. Í síðasta mánuði var farið fram á réttarhöld yfir níu manns sem tilheyra öfgasamtökum sem nefnast OAS. Þeir eru grunaðir um að hafa ætlað sér að ráðast á stjórnmálamenn og eða franska múslima. Önnur slík samtök, AFO, voru stöðvuð árið 2018 eftir að hafa undirbúið árásir á múslima. Jafnframt enn ein samtök sem ætluðu sér að gera árás á forseta landsins, Emmanuel Macron.

Frétt le Parisien

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert