1,2 milljarðar á dag

Kona sýnir kórónupassa á hárgreiðslustofu í Køge í Danmörku og …
Kona sýnir kórónupassa á hárgreiðslustofu í Køge í Danmörku og staðfestir þar með að hún hafi annaðhvort verið bólusett, gengist undir neikvætt próf síðustu 72 klukkustundir eða greinst með veiruna síðustu tvær til tólf vikur og losnað við hana á ný. Kórónupróf kosta danska ríkið nú sem nemur 1,2 milljörðum íslenskra króna á dag og sýnist sitt hverjum. AFP

Kórónuveirupróf í Danmörku kosta danska ríkið um 60 milljónir króna á dag þessi dægrin, jafnvirði 1,2 milljarða íslenskra króna. Aðgangur að bókasöfnum, líkamsrækt, tónleikum, rakarastofum og mýmörgu öðru krefst þess nú að Danir geti sýnt fram á nýtt neikvætt veirupróf eða bólusetningu og voru um 500.000 veirupróf tekin dag hvern í síðustu viku, ef marka má tölur landlæknisembættisins danska.

PCR-prófið svokallaða kostar 115 krónur, 2.300 íslenskar, og skyndipróf 150 krónur, 3.000 íslenskar. Samkvæmt útreikningum danska ríkisútvarpsins DR liggur daglegur próftökukostnaður því við 60 milljónir, rétt ofan við þær meira að segja. Jes Søgaard, prófessor í heilbrigðishagfræði (d. sundhedsøkonomi) við Syddansk-háskólann, fær sömu tölu út.

Viðskiptavinir á Mikkeller's Warpigs í Kaupmannahöfn fá sér bjór og …
Viðskiptavinir á Mikkeller's Warpigs í Kaupmannahöfn fá sér bjór og sýna fram á kórónuleysi sitt með símum sínum. AFP

„Í Danmörku eru einna flest veirupróf tekin í heiminum sem hefur meðal annars gert það að verkum að við höfum ekki fengið þriðju bylgjuna yfir okkur,“ segir prófessorinn. Kveður hann prófin ekki dýru verði keypt sé borið saman við kostnaðinn við hugsanlega þriðju bylgju sem hann telur myndu kosta tvo til þrjá milljarða viku hverja, jafnvirði 40 til 60 milljarða íslenskra króna. Hann segir DR því að prófgjöldunum sé vel varið.

Brjálæði með tilgang

Lone Simonsen, prófessor í farsóttarfræðum við Háskólann í Hróarskeldu, samsinnir Søgaard um nauðsyn prófanna, en bendir jafnframt á verðmiðann á einu kórónusmiti. Miðað við tölfræðina nú kosti 75.000 danskar krónur af prófum, eina og hálfa milljón íslenskar, að fá eitt jákvætt próf, finna eina smitaða manneskju. „Þetta brjálæði er í góðum tilgangi og prófin eru stór þáttur í því að við höfum stjórn á faraldrinum,“ segir Simonsen.

Allt til alls í hreinlætismálum á danskri líkamsræktarstöð. Ætlast er …
Allt til alls í hreinlætismálum á danskri líkamsræktarstöð. Ætlast er til að viðskiptavinir þrífi tækin eftir notkun auk þess sem þeir þurfa að sýna kórónupassann sinn til að komast á æfingu. AFP

Søgaard telur þess skammt að bíða að hægt verði að hætta prófunum alfarið. Með hverri viku minnki líkurnar á alvarlegri smitbylgju samhliða því sem hlutfall bólusettra hækkar í þjóðfélaginu. „Þegar kemur fram í júní mun það varla borga sig, sé litið til hreinna fjárhagsraka, að prófa svona marga. Þá verða líkurnar á þriðju bylgjunni orðnar mjög litlar.“

Martin Geertsen, þingmaður og fulltrúi heilbrigðismála Venstre-flokksins, segir kostnaðinn við prófin taka út yfir allan þjófabálk. „Þetta eru brjálæðislega miklir peningar. Það er gott að við prófum marga, en tilgangurinn þarf að helga brjálsemina. Við eigum að prófa þá sem verður að prófa, en á sumum vettvangi er það ekki nauðsynlegt,“ segir Geertsen.

Meira lokað í nágrannalöndum

Eins þykja honum kröfurnar keyra úr hófi fram. „Það er of langt gengið að maður þurfi að sýna kórónupassa til að fá sér einn kaffibolla á kaffihúsi, fara í líkamsrækt eða á bókasafn,“ segir hann og Liselott Blixt frá Danska þjóðarflokknum tekur í sama streng. „Þetta eru rosalegar tölur. Vandamálið er hins vegar hvað það kostaði samfélagið ef við prófuðum ekki,“ veltir Blixt upp, en telur þó ekki rétt að draga úr prófum fyrr en eftir sumarfrí.

Hjónin Inga og Erling Halmqvist á leið í seinni sprautuna …
Hjónin Inga og Erling Halmqvist á leið í seinni sprautuna í Brønderslev á Norður-Jótlandi við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Álaborgar, eða hluta hennar að minnsta kosti. AFP

Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra Jafnaðarmannaflokksins, segir prófin einfaldlega nauðsynleg eigi að halda samfélaginu opnu. „Við sjáum það bara í öllum löndum í kringum okkur, að þar er mun meira lokað en hjá okkur. Við gerum bara það sem hægt er til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits. Þegar fram líða stundir og fleiri verða bólusettir tökum við færri próf,“ segir ráðherra um þessa miklu og dýru vorprófatörn Dana.

DR

Politiken

Berlingske

mbl.is

Bloggað um fréttina