„Eins og fallbyssuskot“

Hús og mestallt innbú Harald Lorentzen er gjörónýtt eftir að …
Hús og mestallt innbú Harald Lorentzen er gjörónýtt eftir að rafhlaðan á hjólinu hans sprakk í hleðslu. Sjálfur hlaut hann þriðja stigs bruna á fæti þegar ekkert gekk að slökkva í hjólinu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Tilfellum þar sem kviknar í rafhlöðum rafknúinna farartækja fjölgar milli ára í Noregi og brýna talsmenn tryggingafyrirtækja og slökkviliðs fyrir fólki að kynna sér og þekkja til góðra ráða við umgengni hleðslurafhlaða. Frá því í hitteðfyrra hafa brunar í rafhlöðum rafmagnsbíla og -reiðhjóla staðið efst á tölfræðilistanum.

Árið 2019 kviknaði í rafhlöðum 17 rafmagnsbíla, 19 í fyrra og hafa átta slíkir brunar komið upp í Noregi það sem af er þessu ári. Rafmagnshjól skipa annað sætið með fjóra bruna 2019, 12 í fyrra og einn í ár. Minna er um að kvikni í rafmagnshlaupahjólum, þar eru skráð fimm tilfelli sem vitað er um frá ársbyrjun 2019.

Harald Lorentzen frá Hammerfest, sem nú býr í Þrándheimi og var kunnur frjálsíþróttameistari á yngri árum, var hætt kominn í mars þegar hús hans gjöreyðilagðist og hann hlaut sjálfur þriðja stigs bruna á fæti eftir að rafhlaðan á rafmagnshjóli hans sprakk í hleðslu.

Náði ekki að taka öryggið af

„Þetta var bara eins og fallbyssuskot,“ sagði Lorentzen í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK í apríl. Hann spratt upp úr sófanum þar sem hann hafði legið í makindum, greip brunateppi og kastaði því yfir hjólið. Þetta hafði lítið að segja þar sem næsta sprenging þeytti teppinu af hjólinu og svo gerðust hlutirnir hratt.

Lorentzen greip slökkvitækið, sem lögboðið er að hafa á öllum heimilum í Noregi, en náði ekki að rífa öryggið úr. Fljótlega skíðloguðu gluggatjöldin sem hann reif þá niður og brenndi sig þá á fætinum.

Rafhlöður ýmissa tækja, þar á meðal rafmagnsreiðhjóla, sem kviknað hefur …
Rafhlöður ýmissa tækja, þar á meðal rafmagnsreiðhjóla, sem kviknað hefur í við hleðslu. Aldrei ætti að hlaða slík tæki að nóttu og gæta þess enn fremur að hætta hleðslu þegar tækin eru fullhlaðin. Ljósmynd/Norska lögreglan

„Maður vill helst ekki standa bara og horfa á húsið sitt brenna og ég reyndi líklega aðeins of lengi að slökkva eldinn,“ sagðist frjálsíþróttakappanum frá, en auk brunasársins fékk hann sót ofan í lungu og mátti liggja þrjá daga á sjúkrahúsi áður en hann fékk inni hjá vini sínum til að byrja með.

Leander Lysklett, slökkviliðsmaður hjá Slökkvi- og björgunarliði Þrændalaga, var meðal slökkviliðsmanna sem komu á vettvang. Hann segir ekki heiglum hent að slökkva í brennandi rafhlöðum og þakkaði fyrir að Lorentzen fylgdi því einfalda og góða ráði að hlaða rafhlöðurnar ekki að næturlagi.

Hann segir slökkviliðið fyrst hafa dælt vatni inn í brunann en þá hafi blossi lýst stofuna upp. „Þá áttuðum við okkur á að þetta var rafhlaða og skrúfuðum fyrir vatnið. Orkan í svona rafhlöðu er gríðarleg, öll hæðin skíðlogaði,“ segir Lysklett.

Skemmdir á rafhlöðu góð vísbending

Versta ráðið sé að sprauta eða skvetta vatni á logandi rafhlöðu, við það blossi eldurinn upp. Að sögn Anders Rørvik Ellingbø, brunaverkfræðings hjá tryggingafélaginu If, beitir slökkvilið þeim ráðum gegn eldi í hleðslurafhlöðum að koma rafhlöðunni út úr húsi og sökkva henni í hæfilega stórt ílát, fullt af vatni, til dæmis fötu sé það mögulegt.

Elling kveður einnig gott ráð að vera á varðbergi gagnvart skemmdum á rafhlöðum. „Þessar rafhlöður verða auðveldlega fyrir tjóni, til dæmis þegar farið er á rafmagnshlaupahjóli yfir hraðahindrun eða gangstéttarkant, eins er nóg að missa rafhlöðuna þegar hún er tekin af hjólinu og sett í hleðslu,“ bendir hann á.

Anders Rørvik Ellingbø, brunaverkfræðingur hjá tryggingafélaginu If, segir rafhlöður auðveldlega …
Anders Rørvik Ellingbø, brunaverkfræðingur hjá tryggingafélaginu If, segir rafhlöður auðveldlega verða fyrir tjóni og ætti ávallt að bera sýnilegar skemmdir undir þjónustuaðila tækjanna. Ljósmynd/Tryggingafélagið If

Sé sýnilegur skaði á rafhlöðu ætti ávallt að leita til þjónustuaðila og biðja hann um að athuga ástandið. Sumt sjáist þó ekki, svo sem framleiðslugallar og bilanir sem orðið geti meðal annars til þess að hleðsla hættir ekki sjálfkrafa þegar rafhlaða er fullhlaðin.

Reiðhjól með rafmagnsaðstoð eru vinsæl farartæki í Noregi og kaupa Norðmenn um 70 – 80.000 slík ár hvert. Talið er að 400.000 hjól séu í umferð í landinu um þessar mundir og því kannski ekki að undra að einhverjum sögum fari af brunum í rafhlöðum þeirra. Eins hafa tryggingafélögum og slökkviliði borist tilkynningar um eld í farsímum og spjaldtölvum við hleðslu. Skráð tilfelli á þeim vettvangi í Noregi eru átta árið 2019, sjö í fyrra og eitt það sem af er þessu ári.

NRK
NRKII (bruninn hjá Lorentzen)
NRKIII (kviknaði í hjóli um miðja nótt)
Fanaposten (kviknaði í rafknúnum hjólastól)

mbl.is

Bloggað um fréttina