ESB hefur ekki framlengt við AstraZeneca

Thierry Breton framkvæmdastjóri innri markaðar ESB.
Thierry Breton framkvæmdastjóri innri markaðar ESB. AFP

Evrópusambandið hefur ekki endurnýjað pantanir á bóluefni AstraZeneca við Covid-19 fram yfir afhendingaráætlun út júní, og ekki er víst að svo verði er kom fram í máli Thierry Breton, framkvæmdastjóra innri markaðar ESB, í dag. 

Evrópusambandið höfðaði mál á hendur lyfjarisans AstraZeneca í síðasta mánuði vegna vanefnda þess á afhendingaráætlun fyrir bóluefni sínu við Covid-19 til Evrópusambandslanda.

Almennt traust til bóluefnis AztraZeneca mælist lítið vegna fréttaflutnings af mögulegum tengslum við blóðtappa í heila að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Sum aðildarríki ESB hafa takmarkað eða tekið fyrir notkun á bóluefni AstraZeneca, þeirra á meðal Danmörk. Lyfjaeftirlitsstofnum ESB segir þó áhættu við bóluefnið margfalt minni en að smitast af Covid-19 og mæla með notkun þess. 

„Við höfum ekki endurnýjað samninginn fram yfir júní í ár,“ sagði Breton í viðtali við franska ríkisútvarpið. „Hvort að við munum gera það, það á eftir að koma í ljós,“ bætti hann við. 

Hann sagði það ekki endilegt að ESB væri fráhverft nýjum samningum við AstraZeneca og ekkert væri öruggt í þeim efnum. 

Hundruð milljóna aukaskammta

Í gær tilkynnti Ursula von der Leyen, formaður framkvæmdastjórnar ESB að sambandið hefði náð nýjum samningum við samkeppnisaðila AstraZeneca; BioNTech/Pfizer, upp á 1,8 milljarða auka skammta af bóluefni þeirra.

Það er til viðbótar þeim 600 milljón skömmtum sem sambandið hefur þegar tryggt sér með samningum. Íbúar innan Evrópusambandsins eru alls 450 milljónir. 

Fram kemur á vef RÚV að gera megi ráð fyrir því að Ísland fái 1,4 milljónir skammta af bóluefni Pfizer/BioNTech, af þessum auka skömmtum á næsta ári og því þar næsta.

Embættismaður sem sér um dreifingu bóluefna til Norðurlandanna fyrir hönd Evrópusambandsins segir að líta megi á skammtana sem tryggingu, verði þörf á að bólusetja aftur gegn nýjum veiruafbrigðum.

Frétt RÚV.

mbl.is