Tugir stúlkna jarðsettir

AFP

Tugir ungra stúlkna voru jarðsettir í kirkjugarði í Kabúl í dag, sólarhring eftir að árás var gerð á skóla þeirra í mannskæðustu árás í Afganistan í meira en ár. 

Yfir fimmtíu létust í árásinni og flestir þeirra látnu eru ungar stúlkur. Yfir eitt hundrað særðust í Dasht-e-Barchi, úthverfi vestur af Kabúl þar sem flestir íbúarnir eru Hazarar sem er minnihluta­hóp­ur síja-múslíma. 

Varað er við myndum og því sem kemur fram í þessari frétt.

Ríkisstjórn Afganistans sakar talíbana um að bera ábyrgð á blóðbaðinu en samtökin neita því og hafa sent frá sér yfirlýsingu um að tryggja þurfi öryggi menntastofnana. 

Árásin er gerð á sama tíma og Bandaríkjaher heldur áfram að senda hermenn sína heim en alls eru 2.500 bandarískir hermenn enn í landinu.

Talsmaður innanríkisráðuneytisins, Tareq Arian, segir að bílsprengja hafi sprungið fyrir framan Sayed Al-Shuhada-stúlknaskólann og þegar nemendurnir hlupu út skelfingu lostnir hafi tvær sprengjur til viðbótar sprungið. Fjölmargir íbúar hverfisins voru að kaupa inn fyrir Eid al-Fitr-trúarhátíðina en hún markar enda heilags mánaðar múslíma, ramadan, þegar sprengjurnar sprungu. 

AFP

Trékistum með líkunum var komið fyrir í gröfunum í morgun, hverri á fætur annarri. Að sögn Mohammads Taqi, íbúa Dasht-e-Barchi sem var viðstaddur útförina, var aðkoman skelfileg. Þegar hann kom á vettvang við skólann voru lík út um allt, höfuð- og handarlausir líkamar en tvær dætur hans eru í skólanum. Báðar sluppu ómeiddar. „Þetta voru allt stelpur. Lík þeirra voru í hrúgu, hvert ofan á öðru.“

Í síðustu viku höfðu nemendur skólans mótmælt skorti á kennurum og kennslubúnaði að sögn Mirza Hussain sem er háskólanemi frá þessu svæði. „En það sem þær fengu í staðinn var fjöldamorð.“

AFP

Bækur og önnur skólagögn þeirra sem létust liggja enn eins og hráviði á vettvangi. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur fordæmt árásina og segir að ofbeldi í og við skóla sé aldrei hægt að sætta sig við. Börn megi aldrei verða skotmörk ofbeldis. 

Dasht-e-Barchi-hverfið hefur ítrekað verið skotmark íslamskra öfgahópa súnní-múslíma. Fyrir ári réðst hópur vopnaðra vígamanna inn á sjúkrahús á svæðinu og skaut 25 til bana, þar á meðal 16 mæður nýfæddra barna.

Í október létust 18 í sjálfsvígsárás í menntasetri í þessu sama hverfi. 

mbl.is