Þrír alvarlega særðir eftir hnífaárás

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Maður stakk fjóra með hníf í matvöruverslun í Dunedin á Suðureyju á Nýja-Sjálandi í nótt, um miðjan dag þar í landi. Þrír eru alvarlega slasaðir.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir að ekki virðist vera tenging á milli árásarinnar og öfgahópa. Ofbeldisfullar árásir á borð við þessa eru óvanalegar á Nýja-Sjálandi.

Árásamaðurinn er í varðhaldi lögreglu. Vitni segja manninn hafa haft tvo hnífa í fórum sínum, ráðist að starfsfólki og viðstaddir viðskiptavinir sem reyndu að skerast í leikinn hefðu einnig særst. 

Síðasta fjöldaárás á Nýja-Sjálandi átti sér stað í Christchurch í mars árið 2019, þar sem hvítur öfga-hægriþjóðernissinni skaut á mosku þar sem 50 múslimar létust og 40 til viðbótar særðust alvarlega. 

Ardern sagði í dag að fyrsta spurningin sem hún hefði spurt lögregluyfirvöld væri hvort árásin tengdist þjóðaröryggi og var henni svarað neitandi. Hún segir ekkert benda til þess að árásin falli undir skilgreiningu hryðjuverkaárásar. 

Hún sagði einnig að enginn annar sé grunaður um aðild að málinu og þakkaði og hrósaði viðstöddum viðskiptavinum verslunarinnar fyrir að koma samborgurum sínum til bjargar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert