Kraminn til bana í ruslabíl

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Þrettán ára drengur kramdist til bana í ruslabíl eftir að hann sofnaði í ruslagámi sem tæmdur var í bílinn í Port Lincoln í Ástralíu. 

Ökumaður ruslabílsins áttaði sig ekki á því að drengurinn, sem var sofandi ásamt tveimur öðrum drengjum, væri í gámnum fyrr en búið var að tæma úr honum í ruslabílinn. Hinir drengirnir voru ellefu og tólf ára. Annar þeirra náði að koma sér úr gámnum áður en hann var tæmdur en hinn slapp með minni háttar meiðsl. 

Fram kemur á BBC að til rannsóknar sé af hverju drengirnir voru sofandi í gámnum. 

Jo Clark, forstöðumaður stuðningsþjónustu fyrir ungt fólk og börn í suðurhluta landsins, segir að drengirnir hafi allir sótt miðstöð á vegum þjónustunnar reglulega. 

Hún segir að drengurinn sem lést hafi ekki verið heimilislaus heldur „ung manneskja sem eins og margir aðrir átti erfitt með að feta sig í gegnum unglingsárin og finna sér stað, og var af fjölda ástæðna að sofa úti“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert