Norðmenn sækja þúsundir milljarða í olísjóðinn

Norskur olíuborpall.
Norskur olíuborpall. AFP

Norðmenn hyggjast nota sem nemur rúmlega sex þúsund milljörðum króna úr olíusjóði sínum til að stemma stigu við áhrifum kórónuveirufaraldursins. 

Í endurskoðuðum fjárlögum leggur fjármálaráðherrann Jan Tore Sanner til að 402,6 milljarðar norskra króna verði teknir úr sjóðnum, en upphæðin jafngildir 49 milljörðum dollara og 40 milljörðum evra. 

Sú upphæð sem upphaflega var gert ráð fyrir að tekin yrði úr sjóðnum er tæplega 90 milljörðum norskra króna lægri. 

Álíka viðamiklar breytingar urðu á fjárlögum norska ríkisins vorið 2020, en þá notuðu Norðmenn 420 milljarða norskra króna úr olíusjóðnum. Aldrei hafði önnur eins upphæð verið tekin úr sjóðnum í 24 ára sögu hans. 

Í tilkynningu frá norska fjármálaráðuneytinu kemur fram að stór hluti upphæðarinnar sem tekin verður úr sjóðnum í ár fari í efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldursins. 

Alla jafna getur norska ríkisstjórnin sótt allt að 3% af verðmæti sjóðsins til fjármögnunar verkefnum og aðgerðum, en hlutfallið sem nýtt verður í ár er talsvert hærra, alls 3,7%. 

Þar sem ríkisstjórn Ernu Solberg er í minnihluta á norska þinginu er ekki gefið að endurskoðuð fjárlög verði samþykkt í þeirri mynd sem nú liggur fyrir. 

Norski olíusjóðurinn, sem er stærsti fjárfestingarsjóður heims, tapaði 188 milljörðum norskra króna á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Upphæðin jafngildir um 2.900 milljörðum króna. 

mbl.is