Þrír féllu í bardaga námumanna og innfæddra

Frumbyggjum Amasónregnskógarins stafar hætta af ólöglegum námugreftri.
Frumbyggjum Amasónregnskógarins stafar hætta af ólöglegum námugreftri. AFP

Þrír námumenn létust þegar skotbardagi braust út á milli námumanna og frumbyggja í brasilíska hluta Amasónregnskógarins. Námumennirnir reyndu að fara inn á verndarsvæði Yanomami-frumbyggja í leyfisleysi eftir að þeir gerðu upptækt eldsneyti sem námumennirnir voru að smygla í gegnum verndarsvæðið.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu eru um 20 þúsund leyfislausir gullgrafarar á Yanomami-landssvæðinu, stærsta verndarsvæði frumbyggja í Brasilíu. Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, er talinn kynda undir ofbeldi og glæpastarfsemi námumannanna á landssvæðinu samhliða aðgerðum ríkisstjórnar hans við að draga úr virkni náttúruverndarlaga landsins. Þetta er í þriðja sinn á tveimur vikum sem átök brjótast út á milli frumbyggja og námumanna á landssvæðinu.

Í bréfi til stjórnvalda krafðist Hekurari Yanomami, einn af liðsmönnum Yanomami-Ye'kuanna-hópsins, að þau grípi til aðgerða til þess að stemma stigu við ofbeldinu sem hefur brotist út á svæðinu og tryggja öryggi frumbyggja á svæðinu.

Bolsonaro, sem studdur er meðal annars af valdamiklum mönnum innan landbúnaðargeirans í Brasilíu, hefur lengi barist gegn því að veita frumbyggjum stór verndarsvæði á kostnað landbúnaðar og iðnaðar. Ríkisstjórn hans hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi gegn ólöglegu skógarhöggi og námugreftri af aðgerðasinnum og baráttuhópum fyrir réttindum innfæddra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert