Tíu börn og kennari létust í árásinni

Fyrir utan skóla númer 175 í Kazan.
Fyrir utan skóla númer 175 í Kazan. AFP

Ellefu eru látnir eftir skotárás í skóla í borginni Kazan í Rússlandi. Af þeim eru tíu börn. Tvö þeirra létust við að stökkva af þriðju hæð skólans. Einn kennari lést í árásinni sem var framin af tveimur einstaklingum. Annar þeirra var skotinn til bana inni í skólabyggingunni en hinn handtekinn af lögreglu. Misvísandi fregnir hafa borist af aldri hans, ýmist að hann sé 17 ára eða 19 ára.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur heitið því að byssulöggjöf landsins verði endurskoðuð í kjölfar árásarinnar. Tólf börn og fjórir starfsmenn skólans særðust í árásinni og hafa verið flutt á sjúkrahús þar sem gert er að áverkum þeirra.

Borgin Kazan er í Tatarstan-héraði, um 820 km austur af Moskvu. 

Rússneskir samfélagsmiðlar hafa birt myndir af vettvangi þar sem börn sjást stökkvandi út um glugga með skothríð í bakgrunni. Eins af þungvopnuðum lögreglumönnum og sjúkrabifreiðum við skólann sem er númer 175 í Kazan. 

Forseti Tatarstans, Rustam Minnikhanov, sagði við fréttamenn við skólann að hryðjuverkamaðurinn sem hafi verið handtekinn sé 19 ára. Hann hafi verið skráður eigandi skotvopna. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert