Ekki boðið í afmæli og skaut sex til bana

Colorado Springs.
Colorado Springs. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lögreglan í Colorado segir að vopnaður maður, sem skaut sex til bana í afmælisveislu um helgina, hafi verið ósáttur við að hafa ekki fengið boð í afmælið.

Að sögn lögreglu skaut Teodoro Macias, 28 ára, unnustu sína, Söndru Ibarra-Perez, 28 ára, til bana er hann mætti óboðinn í afmælið auk fimm annarra úr fjölskyldu hennar áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér.

Árásin var gerð í hjólhýsahverfi í borginni Colorado Springs aðfaranótt sunnudags. Veislan var haldin til heiðurs þremur skyldmennum og létust tvö þeirra í árásinni. Tæpir tveir mánuðir eru síðan 11 voru skotnir til bana í matvöruverslun í annarri borg í ríkinu, Boulder, að því er segir í frétt BBC.

Að sögn lögreglu hafði kastast í kekki á milli árásarmannsins og fjölskyldunnar sem hann beindi vopnum sínum að viku áður og hann því ekki boðinn í afmælið. Hann hafi verið mjög afbrýðisamur unnusti og viljað stjórna lífi unnustu sinnar og jafnvel reynt að koma í veg fyrir að hún færi í veisluna.

Lögreglustjórinn í Colorado Springs, Vince Niski, sagði á blaðamannafundi í gær að bak við þennan skelfilega glæp væri heimilisofbeldi. „Þegar honum [Macias] var ekki boðið í fjölskyldusamkvæmi svaraði hann með skotárás.“

Hann segir að morðinginn hafi ekki verið á sakaskrá en hann og unnusta hans höfðu átt í sambandi í um það bil ár og Macias hafi viljað ráða öllum hennar gjörðum.  

Þrír unglingar sem voru í boðinu höfðu skroppið til nágranna til að sækja aðföng skömmu fyrir skotárásina og voru ekki á staðnum þegar hún var gerð. Þrjú börn á aldrinum fimm til ellefu ára urðu aftur á móti vitni að árásinni en eru ekki með líkamlega áverka eftir hana. 

Lögreglan birti í gær nöfn og aldur þeirra sem létust í árásinni auk Söndru Ibarra-Perez.

  • Melvin Perez, 30
  • Joana Cruz, 53 (móðir Melvins)
  • Jose Gutierrez Cruz, 21 (bróðir Melvins)
  • Mayra Perez, 32 (eiginkona Melvins)
  • Jose Ibarra (bróðir Mayru)

Nubia Marquez, systir Melvins Perez og dóttir Joönu Cruz, segir í viðtali við Colorado Springs Gazette þau þrjú hafa átt afmæli í sömu viku og alltaf fagnað afmælinu saman. Hún kom í veisluna sem haldin var á heimili Cruz-fjölskyldunnar með eiginmanni sínum Freddy Marquez. Þau hafi hins vegar farið heim um klukkan 22 á laugardagskvöldið. Skotárásin var gerð skömmu eftir miðnætti. 

Freddy Marquez segir í viðtalinu við Gazette að morðinginn hafi alltaf verið með byssu á sér hvert sem hann fór. Vopnið sem hann notaði var ekki skráð á hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert