Fór inn á skólalóð í leyfisleysi

Borgin Miami Beach en einn af íbúum hennar hefur verið …
Borgin Miami Beach en einn af íbúum hennar hefur verið handtekinn fyrir að fara í heimildarleysi inn á skólalóð. AFP

28 ára bandarísk kona hefur verið ákærð fyrir að fara í heimildarleysi á lóð framhaldsskóla í Flórída. Tilgangur hennar með ferðinni var að vekja athygli á sér á samfélagsmiðlum meðal framhaldsskólanemanna. The Washington Post greindi frá þessu í dag.

Audrey Francisquini arkaði í framhaldsskóla í Miami-Dade sýslunni þar sem hún tók sjálfa sig upp rétta nemendum skólans bæklinga sem vísuðu þeim á Instagram-aðgang hennar. Hún vakti brátt athygli öryggisvarðar í skólanum. Þegar öryggisvörðurinn varaði stjórnendur skólans við að það væri möguleg ógn á lóðinni flúði Francisquini svæðið.

Lögreglan rakti fljótt slóð hennar þökk sé bæklingunum sem hún skildi eftir sig og handtók hana við heimili hennar. Francisquini streymdi því á Instagram þegar lögreglan umkringdi hús hennar og hélt því fram að hún ætlaði ekki að stíga út úr húsi sínu.  

Francisquini starfaði áður sem lögreglukona í Georgíu-ríki en hún var rekin árið 2017 fyrir að leka nektarmyndum af annarri lögreglukonu til samfélagsmiðla.  

mbl.is