Grískur grínisti ákærður fyrir kynferðisbrot

Margar ásakanir um kynferðisbrot hafa verið lagðar fram í Grikklandi …
Margar ásakanir um kynferðisbrot hafa verið lagðar fram í Grikklandi undanfarið.

Einn helsti grínisti Grikkja hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Þetta er nýjasta málið í landinu tengt #MeToo sem kemst í dagsljósið.

Heimildarmaður innan dómkerfisins í Grikklandi greindi frá þessu. 

Petros Filippidis, sem hefur átt farsælan feril í leikhúsi og sjónvarpi síðastliðna þrjá áratugi, hefur verið sakaður af kvenkyns samstarfsmönnum sínum um að biðja um greiða af kynferðislegum toga gegn því að hjálpa þeim að fá hlutverk.

Honum var vikið í febrúar úr gamanþáttum sem voru sýndir á sjónvarpsstöðinni ERT eftir að ásakanirnar voru lagðar fram.

Filippidis, sem er 57 ára, neitar ásökununum.

Margar ásakanir um kynferðisbrot í listum, íþróttum og menntastofnunum hafa komið fram í Grikklandi undanfarna mánuði.

Í febrúar var fyrrverandi listrænn stjórnandi gríska þjóðleikhússins, Dimitris Lignadis, ákærður fyrir að nauðga börnum. Hann situr í varðhaldi og bíður réttarhalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert