OECD vill hærri erfðafjárskatt

Eignaverð, þar með talið fasteignaverð, hefur hækkað skarpt í ríkjum …
Eignaverð, þar með talið fasteignaverð, hefur hækkað skarpt í ríkjum OECD undanfarin ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erfðafjárskattur ætti að standa undir hærra hlutfalli af skatttekjum ríkisins eftir kórónuveirufaraldurinn. Þetta segir í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Í skýrslunni er varað við því að ójöfnuður í ríkustu löndum heims muni aukast næsta áratuginn nema spornað verði gegn því. Hækkun erfðafjárskatts og auknar varnir gegn skattasniðgöngu þeirra allra ríkustu eru enn fremur sagðar munu hjálpa ríkjum að greiða niður skuldir sem safnast hafa upp í faraldrinum.

Fram kemur að erfðafjárskattur hafi árið 2019 staðið undir 0,45% af skatttekjum Íslands, en í þeim 24 OECD-ríkjum sem leggja á erfðafjárskatt er meðaltalið 0,53%.

Hæst er hlutfallið í Kóreu, Belgíu og Japan, um 1,5%. Tólf ríki OECD leggja hins vegar ekki erfðafjárskatta, en meðal þeirra eru Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að erfðafjárskattur og aðrir eignaskattar verði 0,67% af skatttekjum íslenska ríkisins.

Eignaverð, þar með talið fasteignaverð, hefur hækkað hratt í þróuðum ríkjum undanfarin ár og segir í skýrslunni að eignaójöfnuður í OECD-ríkjum sé mikill og hafi aukist í sumum ríkjum á síðustu áratugum. „Erfðafjárskattur gæti verið sérlega mikilvægur í þessu samhengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert