Veikur aðgerðasinni berst fyrir umbótum

Lýðræðissinninn Parit „Penguin
Lýðræðissinninn Parit „Penguin" Chiwarak er hann yfirgaf fangelsið. AFP

Alvarlega veikum taílenskum aðgerðasinna í hungurverkfalli var sleppt úr fangelsi í dag. Hann heitir því að berjast áfram fyrir umbótum innan konungsveldisins í landinu. 

Parit Chiwarak, sem er kallaður „Penguin” eða „Mörgæsin”, var í varðhaldi í 100 daga fyrir ýmsar ásakanir í garð konungsveldisins.

Hann er einn þó nokkurra mótmælenda sem hafa verið kærðir fyrir ummæli sín eftir fjölmennar mótmælagöngur þar sem krafist hefur verið breytinga hjá voldugri konungsfjölskyldu landsins.

Stuðningsmaður Chiwarak heldur á teikningu af honum.
Stuðningsmaður Chiwarak heldur á teikningu af honum. AFP

Til að mótmæla varðhaldinu fór hann í hungurverkfall í 57 daga og missti 12 kíló áður en hann var fluttur á sjúkrahús seint í apríl.

Dómstóll í Taílandi leysti lýðræðissinnann Chiwarak úr varðhaldi með þeim skilyrðum að hann yfirgæfi ekki landið eða tæki þátt í einhverju sem „kasti rýrð á konungsveldið”. Þrátt fyrir það sagði hann í færslu á samfélagsmiðlinum Line að hann muni halda ótrauður áfram baráttu sinni fyrir umbótum.

mbl.is